Færsluflokkur: Dægurmál

Vetrarboðinn.

Í kvöld mætti ég á fyrstu æfingu hjá karlakórnum Jökli. Vetrarstarfið er sumsé hafið. Það er mikil andans upplyfting að rífa eyrað frá fréttatímum eða augun af síðum Mogga. Varla þó þorandi því þá gæti maður misst af einhverju mergjuðu af höfuðborgarslúðrinu. Helvíti er hressandi að bryna raustina í samhljómi við hóp manna. Þetta ættu þingmenn að prófa þ.e. þetta sem kallað er að stilla saman strengi (sem í þessu tilviki eru raddböndin) og belja af öllum lífs og sálar kröftum allir í kór. Sá kór yrði að vísu blandaður (samkór) en það getur verið mjög gaman ef allir syngja sama lagið og lúta einum stjórnanda. ímyndið ykkur Sturlu stuðbolta munda tónsprotann. Þeir kallar hafa lofað mér myndarlegum forkaupsrétti ef kórinn yrði einkavæddur og settur á markað. Að þessu leyti leggst veturinn vel í mig.

Ég ítreka enn.

Í síðustu færslu minni kom ég inná aðferð til að bæta sjómönnum og fiskverkafólki tekjumissi vegna skerðingar á þorskkvóta. Ég birti hana hér aftur og vænti þess að gerðar verði athugasemdir við hana og hún fái að vaxa og verða að veruleika í einhverri mynd.

Nú er orðið ljóst að stjórnvöld telja að niðurskurður þorskheimilda bitni eingöngu á útgerðinni. Þá ályktun dreg ég af þeirri ákvörðun sem liggur fyrir að fella niður veiðigjald af þorskveiðum næstu tö ár. Ég hef áður bent á þá leið að sjómenn og fiskverkafólk fái felldar niður verðbætur á lánum sínum næstu tvö ár. Veiðigjaldið má skoða sem verðbætur á afnot af auðlindinni. Það virðist vefjast illilega fyrir þessari auðvaldssinnuðu ríkisstjórn að það er líka almenningur á Íslandi, ekki bara sægreifar og þotulið. Eini munurinn á verðbótum og veiðigjaldi er sá að veiðgjaldið er innheimt af ríkissjóði og rennur óskipt í hann en hluti verðbóta þ.e. verðtryggðra lána frá íbúðalánasjóði rennur til baka í sjóðinn sem er í eigu ríkisins en verðbætur bankalána renna í vasa vildarvina einkavinavæðingarsinna síðustu ríkisstjórnar og gleymum því ekki að þar fór framsóknarflokkurinn mikinn. Margt ef ekki flest fiskverkafólk og sjómenn skulda íbúðalán og á þeim forsendum væri þetta gott mótvægi fyrir þennan hóp. Veiðigjaldið má líta á sem verðbætur á lán til útgerðarinnar í formi aðgangs að auðlind sjávar þannig að þarna er um mjög sambærilegar mótvægisaðgerðir að ræða.

Ég skora á sjómenn og fiskverkafólk að krefjast niðurfellinga verðbóta á lánum næstu tvö árin.


Ítrekun.

Nú er orðið ljóst að stjórnvöld telja að niðurskurður þorskheimilda bitni eingöngu á útgerðinni. Þá ályktun dreg ég af þeirri ákvörðun sem liggur fyrir að fella niður veiðigjald af þorskveiðum næstu tö ár. Ég hef áður bent á þá leið að sjómenn og fiskverkafólk fengi ekki felldar niður verðbætur á lánum sínum næstu tvö ár. Veiðigjaldið má skoða sem verðbætur á afnot af auðlindinni. Það virðist vefjast illilega fyrir þessari auðvaldssinnuðu ríkisstjórn að það er líka almenningur á Íslandi, ekki bara sægreifar og þotulið. Eini munurinn á verðbótum og veiðigjaldi sá að veiðgjaldið er innheimt af ríkissjóði og rennur óskipt í hann en hluti verðbóta þ.e. verðtryggðra bankalána renna í vasa vildarvina einkavinavæðingarsinna síðustu ríkisstjórnar og gleymum því ekki að þar fór framsóknarflokkurinn mikinn. Veiðigjaldið má líta á sem verðbætur á lán til útgerðarinnar í formi aðgangs að auðlind sjávar þannig að þarna er um mjög sambærilegar mótvægisaðgerðir að ræða.

Ég skora á sjómenn og fiskverkafólk að krefjast niðurfellinga verðbóta á lánum næstu tvö árin.


Enn um Írak.

Enn syrtir í álinn fyrir hina viljugu meðreiðarsveina vopnaframleiðenda. Það er nefnilega komið á daginn að Saddam karlinn lýsti sig reiðubúinn að hverfa af vettvangi. Það var ekki hægt vegna þess að þá hefði orðið samdráttur og atvinnuleysi hjá stríðstólaframleiðendum. Þá hefðu þeir lygamerðir hjá CIA líklega orðið atvinnulausir líka.

Í staðinn er búið að murka lífið úr hundruðum þúsunda og það sem meira er, vopnaframleiðendur í Bandaríkjunum boðnir og búnir að selja Írökum enn meira af vopnum.

Hvaða kynslóð af hryðjuverkamönnum er Bandaríkjastjórn eiginlega að bjóðast til að styðja í þetta sinn og eftir hvað marga mánuði þarf svo að ráðast inn í Írak svo vopnaframleiðendur geti selt afurðir sínar.

Þetta er enn stutt dyggilega af íslenskum stjórnvöldum.


Sunnudagshugvekja.

Samkvæmt hádegisfréttum RUV eiga íslenskir rafmagnsgreiðendur von á glaðningi uppá 500.000.000.- fimmhundruð milljónir vegna klúðurs í græðgisæði þrælahaldaranna kringum Kárahnjúkavirkjun. Íslenskt mál geymir tæplega nógu sterk lýsingarorð yfir þessa skömm og niðurlægingu sem viðgengist hefur í kringum alla þessa framkvæmd. Ekki er nóg með að við þurfum að borga skatta innfluttra þræla uppi í Kárahnjúkum gegnum komandi rafmagnsreikninga, heldur bendir allt til þess að skaði ALCOA vegna tafa á afhendingu raforku frá þessum andapolli þarna uppfrá, kosti okkur í það minnsta 1.000.000.000.- einn milljarð í viðbót í formi hærra rafokuverðs. Ég vil benda á að hugsanlega er önnur leið út úr þessum ógöngum. Hún er sú að dýrtseldir eftirlaunaþegar hins opinbera, taki á sig þetta klúður og afsali sér svimandi háum eftirlaunum úr ríkissjóði. Þeim til hugarhægðar skal þeim bent á að það eru nokkrar lausar stöður hjá leikskólum Reykjavíkur en þar búa þeir langflestir.

Eitt stórt smámál.

Í dag var ég upplýstur um að við ættum von á mjög aukinni tíðni á skertri heyrn á komandi árum. Ein aðal ástæðan væru kaup Íslendinga á svokölluðum I-POD spilurum í Bandaríkjunum. Þeir eru með þeim annmörkum að á þeim er ekki hámark á hljóðstyrk sem þýðir að notendur eru ekki verndaðir fyrir hámarks styrk eins og á þeim I-POD spilurum sem framleiddir eru í Evrópu og vottaðir með CE merkinu. Þeir eru er mér sagt, innsiglaðir við 83 db (desíbil). sem er allnokkur hávaði til lengri tíma.


Slegið á frest.

Ég hef tekið þá ákvörðun að gerast ekki brotlegur við landslög fyrr en þessir furðu dóma dómarar eru hættir störfum eða forsendum dóma í lögum hefur verið breytt eða eins og mér sýnist bloggheimur dæma, þessir dómarar hafi lært heima. Það er enginn séns takandi á því að brjóta af sér en fá svo einhvern furðufugladóm fyrir. Nei takk ekki ég.

Lög og réttur.

Er ég að skilja þetta rétt? Er lögreglan að áminna veitingahúsarekendur fyrir að brjóta lög? Er hægt að stunda lögbrot með áminningarétti? Eru þetta ekki eiginlega alveg makalaus vinnubrögð? Ég sem hélt að allir þegnar þessa lands væru jafnir fyrir lögum. Er ekki eitthvað veitingahús munaðarlaust?

Esperanto

Félag Esperantista heldur málþing í Þórbergssetri nú um helgina. Af þeim sem þar eru mættir vil ég telja þau Auðunn Braga Sveinsson, Hallgrím Sæmundsson og Vilborgu Dagbjartsdóttur. Þetta eru allt fyrrverandi kennarar hver á sínu landshorni ef svo má segja og mjög gaman að sjá þau þarna saman komin hvert með sitt innlegg í þetta málþing. Vilborg fór þarna með mjög fallegt ljóð sem ég reyni að láta fylgja.

 

Hljóðlega.

 

Hljóðlega gengur hauströkkrið

í hús mitt.

 

Eins og gömul amma

á sauðskinnsskóm

í svörtu klæðispilsi

með mórenda svuntu

grá hyrnan krossbundin.

 

Hún á sæti í horninu

við herbergisgluggann.

 

Taktfast stígur hún rokkinn sinn.

 

Spunahljóðið

rennur saman

við umferðarniðinn

utan úr borginni.

 

Síkvik

hjúfrandi

kyrrð

umvefur

allt.


Sumarið.

Hér í Suðursveit gengur lífið sinn vanagang eins og í öðrum sveitum landsins. Ekki veit ég nú vel hvort leikmenn bloggsins kunna að meta fjósaykt eða önnur kennileiti íslensks landbúnaðar. Svo mikið er víst að eftir áratuga flæking um landið og miðin, var þráin eftir gömlu skítalyktinni allri ævintýramennsku yfirsterkari svo hér er ég kominn "heim í heiðardalinn" eða þannig. Við höfum reynt ofurlítið við hefðundnar silungsveiðar í sumar með heldur slökum árangri. Hér á árum áður var geysimikil bleikjuveiði hér, sannkölluð matarkista. Nú ber svo við, að í stykkjatali fáum við jafnmikið af ósalúru og við fengum af bleikju fyrir 5-10 árum. Þetta er flatfisktegund sem virðist vera að nema hér land í allmiklum mæli. Að öðru leyti drýpur hér smjör af hverju strái eins og gert hefur frá því frönsku skúturnar báru hér skonrok og konjakk á sandana fyrr á öldum. Hér er feiknagóð berjaspretta, bæði krækiber og bláber. Svo er hér ótalmargt að skoða eins og lesendur væntanlega vita allt frá Jökulsárlóni þar sem hægt er að fara í siglingu innan um boldangsborgarísjaka og ná sér í ósýnilegan ís út í viskíið, heimsækja Þórbergssetur þar sem sagan er varðveitt í formi frásagna, mynda og sýningar, bruna upp á Vatnajökul á snjósleðum eða fallajeppum og gista síðan við gott atlæti á hinum ýmsu ferðaþjónustubæjum í sveitinni. Fallegasti tími ársins fer senn í hönd. Það er þegar haustlitirnir byrja að taka yfir í náttúrunni. Þá skartar Suðursveit sínu fegursta líkt og allt landið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband