5.9.2008 | 10:44
Bólgur; orsakir og afleiðingar.
Leiðinlegir kvillar þessar bólgur. Þær virðast geta komið af minnsta tilefni, birst hvar sem er og haft langvinnar afleiðingar.
Sú versta bólga sem nú kvelur, ekki bara mig heldur "alla" landsmenn er helvítis verðbólgan. Leitum orsakanna. Af hverju stafar þessi verðbólga? Það held ég sé augljóst mál. Lítum á hvers hagur það er að viðhalda henni. Í fljótu bragði er ékki hægt að sjá að neinn hafi hag af henni nema bankarnir sem innheimta verðbætur af skuldugum viðskiptavinum. Skyldi það nú vera að verðbólgunni sé haldið við af þeim sem véla með peninga, þeim sem innheimta verðbætur? Er það virkilega þannig, að í staðinn fyrir ofsagróðann sem átti að ná með útrás bankanna en mistókst hrapalega, sé reynt að rétta af kúrsinn með því að viðhalda verðbólgu innanlands til að kroppa eitthvað upp í vonbrigði með misheppnaðar fjárfestingar í útlöndum eins og td. knattspyrnulið sem ekki pluma sig að ég tali nú ekki um gylliboð sem útrásarvíkingarnir eru að bjóða í útibúum sínum erlendis til að lokka að viðskiptavini. Þau gylliboð ku jafnast á við þau bestu sem boðin er í rauða hverfinu í elstu starfsgrein kvenna í heimi hér.
Það skyldi þó aldrei vera að verðbólgan sé bara manngerð með vitund og vilja hluthafa í hálfhrundum, einkavinavæddum fjármálastofnunum hér innanlands. Það er allavega alveg ljóst að utanaðkomandi aðstæður eiga lítinn sem engan þátt í þessum hamförum.
4.9.2008 | 11:42
Söguskýring:
Ég hef átt leið um Þjóðveg 1 í sumar. Sérstaklega leiðina milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Tilefni þess að ég læt þess getið er, að eigi fyrir alls löngu gerðist samgönguráðherra vor þyrstur mjög í mjöð einn göróttan og til að svala nú þorsta sínum á kostnað skattborgaranna, tók hann það til bragðs að lýsa yfir gsm væddum þjóðvegi 1. Svo mikill var þorstinn að rekinn var niður staur í "Norðurárdal", ekki veit ég hvorum en um báða liggur þjóðvegur 1 og tappi sleginn úr ámu á "staðnum". Á staur þennan, sem líklega hefur svipaðan eiginleika og öndvegissúlur til forna, var hengdur belgur einn sem varpa skyldi gsm merkjum um gervallan hringveginn í einu snarhasti svo ráðherra samgöngumála gæti haldið sínu yndisfríða litarafti. Samkvæmt minni reynslu, getur samgönguráðherrann hresst upp á litaraft síns andlitis alloft án þess að bera frekari kinnroða vegna þess að um 15% leiðarinnar, Höfn-Reykjavík er ennþá sambandslaus við símakerfið gsm. Á skilti fyrir ofan Reykjaví stendur "Höfn 440 KM". Það þýðir að milli 60 og 70 km. á þessari leið eru án gsm sambands.
Ekki græt ég mikið skort á símsambandi á þjóðvegi 1 þó mér finnist gáleysislegt af yfirvöldum að falsa svona staðreyndirnar. Hitt er öllu verra að í sveitarfélaginu Hornafirði eru öll fjarskipti í megnasta ólestri. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar vakti ég athygli frambjóðenda á þessu og fékk að launum mikinn halelújakór, samtóna um úrbætur í snatri. Enn hefur ekkert gerst, ríkisútvarpið heyrist stórum og strjálum með braki og brestum, sjónvarp skilst mér að sé ekki horfandi á til sveita og síðan gsm sambandið höktandi eins og gömul farandkona til forna, þ.e. óvíst hvort kemst til byggða.
Semsagt framundan von um mikið húllumhæ hjá Brennivínsnef ráðherra.
Einu má svo ekki gleyma sem gæti kætt ráðherran enn frekar. Það er vegurinn yfir Hornafjarðarfljót sem velkist milli þúfna eins og blindfullur prófastur með þeim afleiðingum að hvorki gengur né rekur í samgöngumálum héraðsins. Íbúarnir hér hafa vænst þess að á þessum málum yrði tekið í mótvægisaðgerðum sjálftökukórsins en ekkert er að gerast, nema síður sé. Ég vil endilega benda ráðherranum á að þarna bíða margar borðaklippingar og skálarræður.
Ég sem hélt að þegar forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar væri kominn á feitan bitling hjá krathaldinu, færi nú kannske eitthvað að gerast.
3.9.2008 | 13:05
Sjúkdómar!
Ýmsir kvillar eru á kreiki í umhverfinu. Ekki kann ég að sjúkdómagreina fyrrverandi borgarstjóra en greinilega hrjáir hann eitthvað í líkingu við valdasýki. Gott væri að fá orð yfir það hjá heilbrigðisyfirvöldum. Hvaða sjúkdómur nær yfir, bæði valdagræðgi, ofsóknarbrjálæði, minnimáttarkennd og fjölmiðlagræðgi. Maðurinn lætur teyma sig í útvarp og sjónvarp sí og æ og lætur hringsnúast inn og út með öll málefni sem einhverntíman hafa dúkkað upp á borð borgarstjórnar á þessari öld.
Annað viðkomandi borgarstjórn er flugvallarmálið. Hvenær varð Reykjavíkurflugvöllur eign borgarfulltrúanna í Reykjavík. Geta þessir grínleikarar ekki skilið það að þeim kemur Reykjavíkurflugvöllur andskotann ekkert við. Það erum við landsbyggðafólk sem notum þennan flugvöll en ekki borgarfulltrúar í Reykjavík eða borgarbúa yfirleitt. Látið þennan flugvöll í friði og hættið að eyða tíma í þetta stagl, bæði Ólafur Friðlausi og aðrir borgarfulltrúar.
Alvarlegasta kaun sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir í dag er þjónkun yfirvalda við eldsneytissalana. Þar er rænt og ruplað úr vösum fólks og fyrirtækja athugasemdalaust. Á virkilega ekki að koma höndum réttvísinnar yfir þetta helv. glæpahyski. Ég bara spyr vegna þess að mér blöskrar svo gersamlega verðlagið og aðgerðarleysið.