Færsluflokkur: Menning og listir
6.12.2007 | 00:58
Pirringur:
Skammdegi sígur að og komin jólafasta, sauðfjárbændur margir hverjir byrjaðir að fara með hrút í ærnar. Það kallast tilhleypingar í Suðursveit. Veðrið hefur verið rysjótt og því fylgja ýmsir kvillar svo sem eins og flensur sem lýsa sér í raddleysi sem kemur sér ákaflega illa fyrir söngfugla og ræðuskörunga, léleg akstursskilyrði á þjóðvegunumog ýmislegt sem maður lætur fara í taugarnar á sér í hversdagslegu amstri.
Eitt er þó sem hefur farið illilega í mínar þó svo þolinmóðu taugar að undanförnu. Það er þessi helvítis ómerkilegi andskotans límmiði sem hefur verið hengdur framan á forsíðu Morgunblaðsins að undanförnu. Þetta hefur valdið mér meiri vanlíðan en hálsbólga með tilheyrandi raddleysi og hóstakjöltum, sem líklega hefur valdið því að upptaka jólalaga hjá karlakórnum Jökli fóru gjörsamlega í súginn. Að framansögðu getið þið líklega ímyndað ykkur hvað helvítis límmiðinn gerir mér gramt í geði. Ef ég reyni að losa hann, ríf ég venjulega forsíðuna í tvennt, sem þar af leiðandi gerir það að verkum að hún er ólæsileg, eða hver nennir að lesa forsíðufréttir í tveimur pörtum. Ekki ég.
Ég fer ekki fram á mikið. Þið þarna í Reykjavík. Viljiði vinsamlegast halda þessum helvítis límmiðum innan borgarmarkanna. Þeir eiga ekkert erindi til okkar, allavega ekki hingað austur í Suðursveit.
22.11.2007 | 22:31
Gleðifrétt.
Ég sé að á mbl.is er ákaflega gleðileg frétt.
Einn af allra fremstu söngfuglum seinni ára er að snúa í sviðsljósið eftir mörg, mögur og örugglega erfið ár.
Whitney Houston er komin í hljóðver. Ég hlakka mikið til að heyra í þessum snillingi á ný.