Færsluflokkur: Lífstíll

Tími til að endurnýja.

Fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður les þessa frétt, er að þarna hafi gleymst að endurnýja. Einungis 4 af 12 starfa ennþá. Ætli hinar 8 séu fallnar frá? Þetta lýsir nýtni Þjóðverja betur en nokkuð annað.
mbl.is Elsta vændishúsi Hamborgar lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagskrár vikunnar.

Vikan sem er að líða hefur verið sérlega skemmtileg fyrir okkur sem tengjumst meistara Þórbergi. Eftir að hafa hlýtt á dagskrá helgaða 120 ára ártíð Þórbergs í Hátíðarsal Háskóla Íslands og síðan í Þórbergssetri á afmælisdegi meistarans er maður bara stoltur af því að bera þetta mikla, sterka nafn.

Hvað um það. Ágætu lesendur, helgina 5.-6. apríl, verður haldið bridgemót í Þórbergssetri. Þetta mót er haldið í minningu föður okkar systkinanna frá Hala Torfa Steinþórssonar sem hélt uppi merki bridgeíþróttarinnar og reyndar flestra tegunda íþrótta hér í héraðinu í áratugi. Meiningin er að spila sveitakeppni á laugardegi og tvímenning á sunnudegi. Allir sem áhuga hafa á bridge eru hjartanlega velkomnir. Við munum halda á lofti hefð sem faðir okkar kom á fyrr á árum. Að hans frumkvæði var tekinn upp sá siður hér í Suðursveit að eitt kvöld á vetri var efnt til hrossakjötsveislu "sem sýnir kannske best hvaða íþróttir honum hugnuðust", meðfram hefðbundnu bridgekvöldi. Þennan sið vöktum við upp síðastliðinn vetur með góðum árangri. Við vonumst þó til að bæta um betur að þessu sinni og fjölga þáttakendum frá því í fyrra.

Næg gisting er í boði með því fæði sem óskað er. Nóg pláss er fyrir fleiri spilaborð í Þórbergssetri.

Upplýsingar er hægt að fá í Þórbergssetri í síma 478-1078 eða hjá undirrituðum í síma 899-2409. 


Við hæfi.

Jæja þá er komið að því!

Á þessum tímamótum er við hæfi að óska lesendum sínum á þessum vettvangi, hæfilegs ófriðar en þó, gleðilegs nýárs. Gætum þess að ládeyðan nái ekki tökum á okkur því þá verður komandi ár bara leiðinlegt.

Ég ætla að gefa sjálfum mér áramótaheit. Ég ætla að léttast um 8.000 grömm á árinu sem senn byrjar. Ég er núna 80+.

Gleðilegt nýár öll og takk fyrir það sem er að líða.


Jólaglaðningur.

Hérlendis er gefið út dagblað sem nefnist "24stundir" eða "sólarhringur" eins og Sigurður G Tómasson kallar það. Á baksíðu þess blaðs í morgun sá ég þá mestu gleðifrétt sem, en sem komið er, hefur glatt mig hvað mest fyrir þessi jól. Sumsé, íslenskir """athafnamenn""" ætla að styrkja kínverskan skipasmíðaiðnað. Gleði mín felst í því að þarna munu kínverskir skipasmiðir og iðnverkamenn á þeirra snærum, sjá fyrir endan á bágum lífskjörum sem hafa fylgt þeim til þessa dags.

Að sjálfsögðu munu íslensku """athafnamennirnir""" víkja að þeim góðum greiðslum fyrir greiðann eins og þeir hafa allsstaðar gert hvar sem þeir hafa komið og verið þiggjendur.

Ég trúi því að landslýður muni gleðjast með mér þegar hann gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að íslenska útrásin endi alla leið í Kína en þar mun víst vera talsverður skortur á að laun séu mannsæmandi en úr því munu hinir íslensku """athafnamenn""" bæta snarlega trúi ég.

Rétt þykir mér að við hinir sem ekki leggjum í svona framkvæmdir, heiðrum þessa landa okkar á eins veglegan hátt og okkur er unnt. Ég geri hér með þá kröfu til "sólarhringsins", að blaðið nafngeini þessa """menn""" svo við hin getum sýnt þeim hvað við berum mikla virðingu fyrir afli þeirra og áræði.

Að svo mæltu, óska ég landslýð öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að allir séu sáttir við sitt.


Hátíð fer í hönd með ýmsu sniði.

Flest bendir til að við Íslendingar siglum inn í jólahátíðina á m/b Yfirdrætti RE eftir skuldafeni sem er mjög auðrötuð siglingaleið hér innanlands. Skelfileg afleiðing góðæris í gerfi himinhárrar skuldasöfnunar heimilanna í landinu í formi yfirdrátta hlýtur að enda með ósköpum. Ég velti mikið fyrir mér hvort þessi staða skapi þessa ofboðslegu góðærismælingu á okkur í samanburði við aðrar þjóðir.

http://www.blog.central.is/traveller

Ég bið þig lesandi góður að kíkja ofurlítið á þessa síðu hjá dóttur minni. Hugsaðu áður en þú hendir frá þér tækifærinu til að öðlast ofurlitla sálarró í svartasta skammdeginu. Ég er ekki í vafa að hægt er að fá ríflegan yfirdrátt á kostakjörum til að styrkja hin ýmsu svæði í heiminum sem standa höllum fæti. Mér þykir líklegt að hægt sé að höfða til samvisku lánadrottnanna og daganna sem í hönd fara, til að særa út annaðhvort greiðslufrest eða nýjan yfirdrátt í því skyni að koma til aðstoðar bágstöddum í einhverju landi sem standa skör neðar en við á yfirdráttarvelmegunarmæli alþjóðasamfélagsins.


Mogginn fyrstur með fréttirnar.

Alltaf jafn gaman að fá Moggann og engir auglýsingasneplar hangandi utan á honum eins og snýkjudýr. á forsíðunni í dag er frétt um að Kaupþing hafi ráðskast með gengi hlutaréfa í FL Group. Ég hélt að FL og GLitnir væru í vösum sömu aðila. Jæja maður veit ekki alveg allt. Svo er Skeiðarárhlaup hafið en hingað austur í Suðursveit leggur engan brennisteinsfnyk. Á einum stað inni í blaðinu er fjallað um að arabísk ví séu sífellt að verða vinsælli. Svolítið sérkennilegt að framleiðsla á vínum sé leyfileg í löndum þar sem neysla þess er bönnuð. Það var mun meiri samsvörun í aðgerðum hér og víðar á bannárunum sem svo eru kölluð. Þá var bæði neysla og frameiðsla bönnuð en hver fór svo sem eftir því. Ég verð hugsi yfir því hver eigi eiginlega að torga öllu þessu víni frá löndum múslima þegar framleislan verður orðin jafn öflug og verið er að boða í þessari grein. Hvernig verður ástandið eiginlega orðið þegar svo bætist við bjórinn frá Vestmannaeyjum og jafnvel víðar að. Er ekki einhver möguleiki að framleiða annarskonar eldsneyti úr öllu þessu, eitthvað á aðalvélina eða bíltíkina. Æ maður verður bara þyrstur af að hugsa um allar þessar guðaveigar. Halló halló hvar er glasið kelling!!!

Pirringur:

Skammdegi sígur að og komin jólafasta, sauðfjárbændur margir hverjir byrjaðir að fara með hrút í ærnar. Það kallast tilhleypingar í Suðursveit. Veðrið hefur verið rysjótt og því fylgja ýmsir kvillar svo sem eins og flensur sem lýsa sér í raddleysi sem kemur sér ákaflega illa fyrir söngfugla og ræðuskörunga, léleg akstursskilyrði á þjóðvegunumog ýmislegt sem maður lætur fara í taugarnar á sér í hversdagslegu amstri.

Eitt er þó sem hefur farið illilega í mínar þó svo þolinmóðu taugar að undanförnu. Það er þessi helvítis ómerkilegi andskotans límmiði sem hefur verið hengdur framan á forsíðu Morgunblaðsins að undanförnu. Þetta hefur valdið mér meiri vanlíðan en hálsbólga með tilheyrandi raddleysi og hóstakjöltum, sem líklega hefur valdið því að upptaka jólalaga hjá karlakórnum Jökli fóru gjörsamlega í súginn. Að framansögðu getið þið líklega ímyndað ykkur hvað helvítis límmiðinn gerir mér gramt í geði. Ef ég reyni að losa hann, ríf ég venjulega forsíðuna í tvennt, sem þar af leiðandi gerir það að verkum að hún er ólæsileg, eða hver nennir að lesa forsíðufréttir í tveimur pörtum. Ekki ég.

Ég fer ekki fram á mikið. Þið þarna í Reykjavík. Viljiði vinsamlegast halda þessum helvítis límmiðum innan borgarmarkanna. Þeir eiga ekkert erindi til okkar, allavega ekki hingað austur í Suðursveit.


Ófyrirleitnar og villandi fyrirsagnir.

Kjarasamningar í skugga þrenginga í efnahagslífi.

Þessa fyrirsögn má lesa á bloggi Deiglunnar.

Undanfarna mánuði hefur staðið yfir heilaþvottur sem SA (samtök atvinnulífsins) hafa staðið fyrir. Þvegnir og skrúbbaðir eins og sviðahausar, hafa verið heilar í höfðum verkalýðsforkólfa víðsvegar að af landinu, ég held bara allra sem einhverjar líkur eru á að komi nálægt þeim kjarasamningum sem eru í undirbúningi.

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að mér finnst liggja nokkuð ljóst fyrir að forsvarsmenn verkalýðsfélaga eru komnir inn í fílabeinsturn og fá ríflega greitt fyrir. Þeir eru orðnir hæstlaunuðu einstaklingar í sínu umhverfi og hafa þess vegna frekar eigin hagsmuna að gæta en umbjóðenda sinna.

Heilaþvotturinn hefur gengið alveg ágætlega og vert er að hrósa þeim sem halda á skrúbbnum í þetta sinn. Á sama tíma og alls kyns greiningadeildir víðs vegar um veröldina komast að þeirri niðurstöðu að hvergi í heiminum sé meiri velverð en hér, eru þvottakerlingarnar búnar að skrúbba svo verklega inn í heilabúið á viðsemjendunum að það er beinlínis allt í kaldakoli hér. Hér eiga atvinnurekendur ekki til hnífs né skeiðar og eru við það að loka sínum fyrirtækjum vegna óárans og illrar stöðu í hvívetna.

Ég bara spyr, hvers konar aumingjar eru þessir forsvarsmenn í verkalýðsforystunni? Ætla þeir einu sinni enn að láta vælukórinn valta yfir sig og sína umbjóðendur. Þeir sem koma að samningamálum fyrir verkalýðinn verða að gera sér grein fyrir að þeir eru ekki þarna vegna eigin launa, heldur launa umbjóðenda sinna.

Ég hef sagt áður og endurtek hér að lægstu launataxtar eiga að sjálfsögðu að hækka upp í 190.000.- strax ekki eftir 2 ár eða 3. Það að reyna að væla út lækkaða skattprósentu launa upp að einhverju lágmarki er bara tímasóun. Nær væri að fá hækkaðan persónafslátt, breytingu eða niðurfellingu á verðbótaþætti lána, niðurfellingu stimpilgjalda og ýmislegt sem kemur almenningi til góða. Þar með væri hægt að verja það að einungis lægstu laun hækkuðu í þetta sinn.

Mér er ekki fullkunnugt um hvernig forsvarsmenn verkalýðsfélaga semja um sín laun en ég legg til að launahækkanir þeim til handa þeirra verði fryst þar til 190.000,- kr. marki lágmarkslauna verður náð. Eftir það mætti gera sérstakan rammasamning um þeirra kaup og kjör.


Í heimahögunum.

Þar sem ég nú sit og velti fyrir mér framtíð Vatnjökulsþjóðgarðs nýbúinn að lesa Héraðsfréttablaðið Eystra Horn, vaknar með mér sú spurning hvort ekki sé gerlegt að nota eitthvað af þessum miklu byggingum í og við Nesjaskóla í tengslum við þjóðgarðinn.

Í góðri grein sinni bendir bæjarstjórinn á útsýnið til jökulsins frá Stekkakeldu og á þar þá líklega við Öræfajökul. Það er auðvitað gott og gilt að horfast í augu við það sem maður tekst á við og gott ef ekki sést glitta í þann hvíta frá Sunnuhvoli. Þar standa miklar byggingar nú þegar og fyrst ekki virðist vera vilji til að hafa þessa starfsemi inni í bæjarkjarnanum finnst mér að minnsta kosti skoðandi hvort ekki megi nýta þær byggingar sem þegar standa.

Ritstjóri Eystra Horns skrifar hörku leiðara í þetta sinn. Skammar samsveitunga sína fyrir slúður um náungan. Þetta er bæði gömul staðreynd og ný. Á þessu þreifst almúginn öldum saman. Það þarf enginn að segja mér að ólifnaður sýslumanna, hreppstjóra, presta og stórbænda, fyrr á tíð hafi ekki verið umræðuefni manna á meðal. Í dag lesum við um sama efni í dagblöðum, vikublöðum og mánaðarritum sem allsstaðar liggja frammi hvar sem komið er og eru full af þessháttar efni. Í ekki stærra samfélagi en okkar þar sem allir þekkja alla, þrífst líka betur hin illa tunga um náungan sem lagði fyrir framan hjá viðhaldinu (í gamla daga voru þetta hestasteinar) eða hvað það nú er sem ritstjórinn er að ýja að, mikið betur en í stærri samfélögum þar sem gróurnar muna ekki alveg öll bílnúmer. Á þesu lifa kjaftasögurnar og hvað er betra undir tungu en "nágranninn" sá argaþrjótur. Kannske er umræðuefnið oft á tíðum lágkúrulegt eins og gengur og gerist með kjaftasögur en þeir sem kjamsað er á hafa ef til vill, sumir hverjir til einhvers unnið. Fróðleiks og fréttaþyrstum almúga er vorkunn og lái mér hver sem vill þó ég ljái kjaftasögum eyra af og til. Verst að ég man þær ekki stundinni lengur nema þær séu um framsóknarmenn.


Kaupmáttur.

Þetta er dálítið skondið orð. Kaupmáttur, kaupmáttleysi, kaupmáttarþreyta, kaupmáttarýmislegt. Væri kannske ekki úr vegi að semja bara um fastan kaupmátt í næstu kjarasamningum. Fast kaupmáttarstig. Held það mundi leysa algerlega allan vanda í þjóðfélaginu. Rífandi kaupmáttaraukning hefur verið á íslenskun heimilum undanfarin misseri. Svo mikil að nauðsynlegt þykir að taka upp evru til að sporna við þessu rótleysi kaupmáttar.´

Alvara málsins er hins vegar sú að um leið og greiningardeild Kaupþings banka skýrir frá rýfandi kaupmáttaraukningu, koma fréttir úr annarri átt sem upplýsa okkur um að skuldir heimilanna hafi margfaldast á undraskömmum tíma. Í því liggur nú öll kaupmáttaraukninin. Það er í auðfengnu lánsfé eða yfirdrætti hjá íslensku lánastofnununum. Ekki eru launin að hækka eða vöruverð að lækka. Verð á eldsneyti hækkar og og hækkar, Vextir hækka og hækka. Allt hækkar þó sumt hækki rólega eins og t.d. afurðaverð til bænda. Ég get ekki með nokkru móti fundið þessa kaupmáttaraukningu. Hvergi nokkursstaðar í mínu lífi enda ekki með yfirdrátt. Kannske verður maður að fá sér einn eða tvo slíka til að auka kaupmáttinn.

Hvern er verið að blekkja í svona talnaleikjum? Halda þessir talnahagfræðingar að fólk almennt, trúi þessari þvælu?

Vaxtamunur. Þar er ein talnaleikfimin stunduð. Ég gorta af því við félaga mína að ég hafi komið Hannesi Hólmsteini úr 1,9% í 4% í vaxtamun. Geri aðrir betur. Mér skilst að hræðsluáróðursmeistarinn Þorvaldur Gylfason hafi fært sig úr 13,5% niður fyrir 10%. Halda þessir menn að einhver hlusti á þetta bull.

Vaxtamunurinn er mjög mismunandi. Það verður hver einstaklingur, hvert fyrirtæki að reikna fyrir sig. Sumir hafa lágan vaxtamun, jafnvel ofurlítið jákvæðan ef þeir skulda engum neitt. Aðrir hafa háan vaxtamun t.d. þeir sem eru með yfirdrátt á launareikningi og eru alltaf í mínus, eru að auki með verðtryggt lán með 5-10% vöxtum auk okurvaxtanna sem felast í verðtryggingunni. Það er nefnilega póstur sem ég held að menn reikni ekki með þegar vaxtamunur er reiknaður. Verðtrygging er okurvextir á lán sem tekið er af einstaklingum til lengri tíma en 5 ára. Sjálfsagt hafa einhverjir stórir viðskiptavinir betri lánakjör en það er alls ekki hægt að reikna þá með ef tekin er heildartala. Þeir eru ekki með heimilisrekstrarlán á yfirdráttarvöxtum uppá 22% um það bil.

Meira síðar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband