Færsluflokkur: Ferðalög

Í heimahögunum.

Þar sem ég nú sit og velti fyrir mér framtíð Vatnjökulsþjóðgarðs nýbúinn að lesa Héraðsfréttablaðið Eystra Horn, vaknar með mér sú spurning hvort ekki sé gerlegt að nota eitthvað af þessum miklu byggingum í og við Nesjaskóla í tengslum við þjóðgarðinn.

Í góðri grein sinni bendir bæjarstjórinn á útsýnið til jökulsins frá Stekkakeldu og á þar þá líklega við Öræfajökul. Það er auðvitað gott og gilt að horfast í augu við það sem maður tekst á við og gott ef ekki sést glitta í þann hvíta frá Sunnuhvoli. Þar standa miklar byggingar nú þegar og fyrst ekki virðist vera vilji til að hafa þessa starfsemi inni í bæjarkjarnanum finnst mér að minnsta kosti skoðandi hvort ekki megi nýta þær byggingar sem þegar standa.

Ritstjóri Eystra Horns skrifar hörku leiðara í þetta sinn. Skammar samsveitunga sína fyrir slúður um náungan. Þetta er bæði gömul staðreynd og ný. Á þessu þreifst almúginn öldum saman. Það þarf enginn að segja mér að ólifnaður sýslumanna, hreppstjóra, presta og stórbænda, fyrr á tíð hafi ekki verið umræðuefni manna á meðal. Í dag lesum við um sama efni í dagblöðum, vikublöðum og mánaðarritum sem allsstaðar liggja frammi hvar sem komið er og eru full af þessháttar efni. Í ekki stærra samfélagi en okkar þar sem allir þekkja alla, þrífst líka betur hin illa tunga um náungan sem lagði fyrir framan hjá viðhaldinu (í gamla daga voru þetta hestasteinar) eða hvað það nú er sem ritstjórinn er að ýja að, mikið betur en í stærri samfélögum þar sem gróurnar muna ekki alveg öll bílnúmer. Á þesu lifa kjaftasögurnar og hvað er betra undir tungu en "nágranninn" sá argaþrjótur. Kannske er umræðuefnið oft á tíðum lágkúrulegt eins og gengur og gerist með kjaftasögur en þeir sem kjamsað er á hafa ef til vill, sumir hverjir til einhvers unnið. Fróðleiks og fréttaþyrstum almúga er vorkunn og lái mér hver sem vill þó ég ljái kjaftasögum eyra af og til. Verst að ég man þær ekki stundinni lengur nema þær séu um framsóknarmenn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband