Sumarið.

Hér í Suðursveit gengur lífið sinn vanagang eins og í öðrum sveitum landsins. Ekki veit ég nú vel hvort leikmenn bloggsins kunna að meta fjósaykt eða önnur kennileiti íslensks landbúnaðar. Svo mikið er víst að eftir áratuga flæking um landið og miðin, var þráin eftir gömlu skítalyktinni allri ævintýramennsku yfirsterkari svo hér er ég kominn "heim í heiðardalinn" eða þannig. Við höfum reynt ofurlítið við hefðundnar silungsveiðar í sumar með heldur slökum árangri. Hér á árum áður var geysimikil bleikjuveiði hér, sannkölluð matarkista. Nú ber svo við, að í stykkjatali fáum við jafnmikið af ósalúru og við fengum af bleikju fyrir 5-10 árum. Þetta er flatfisktegund sem virðist vera að nema hér land í allmiklum mæli. Að öðru leyti drýpur hér smjör af hverju strái eins og gert hefur frá því frönsku skúturnar báru hér skonrok og konjakk á sandana fyrr á öldum. Hér er feiknagóð berjaspretta, bæði krækiber og bláber. Svo er hér ótalmargt að skoða eins og lesendur væntanlega vita allt frá Jökulsárlóni þar sem hægt er að fara í siglingu innan um boldangsborgarísjaka og ná sér í ósýnilegan ís út í viskíið, heimsækja Þórbergssetur þar sem sagan er varðveitt í formi frásagna, mynda og sýningar, bruna upp á Vatnajökul á snjósleðum eða fallajeppum og gista síðan við gott atlæti á hinum ýmsu ferðaþjónustubæjum í sveitinni. Fallegasti tími ársins fer senn í hönd. Það er þegar haustlitirnir byrja að taka yfir í náttúrunni. Þá skartar Suðursveit sínu fegursta líkt og allt landið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ójá, það var víst mikið um dýrðir þarna í Suðursveitinni þegar svo vel vildi til að frönsk skúta strandaði þar í fjörunni. Mér skilst þó, að í seinni tíð sé orðið hörmulega fátt um góð strönd þar um sveitir enda fransmenn fyrir nokkru hættir að heimsækja íslandsmið á skútum með hvít segl við hún. Því miður hef ég aldrei komið í Suðursveitina, en að sjálfsögðu hef ég lesið heilmikið um hana. Ef svo vel vildi til að ég léti verða af því að álpast þarna austur, myndi ég líkast til láta Vatnajökul eiga sig. Fyrst að ég hef ekki enn haft döngun í mér að skreiðast upp á Snæfellsjökul, sem er svo gott sem í hlaðvarpanum hjá mér, er varla viðeigandi af minni hálfu að eiga við aðra jökla, hvað þá Vatnajökul. En Þórbergssetur langar mig að heimsækja, svo mikið er víst.

Jóhannes Ragnarsson, 1.9.2007 kl. 23:17

2 Smámynd: Páll Jóhannesson

Það er rétt hjá þér Beggi minn að Suðursveitin hefur sinn sjarma, sem og þetta sker okkar allt - Ísland.

Og víst mun ég kynna mér Þórbergssetrið næst þegar ég á leið um þessa förgu sveit.

Páll Jóhannesson, 2.9.2007 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband