20.9.2007 | 00:53
Fjarskiptamál í Austur-Skaftafellssýslu.
Á leið heim úr vinnunni í kvöld, eftir 22:00 fréttir, hófst þáttur á Rás 2. Viðtal við Ólaf Hauk Símonarson, mjög áhugavert allavega í byrjun. Líklega var þetta endurtekinn þáttur þó ég viti það ekki, nenni ekki að athuga það enda skiptir það engu máli í þessu samhengi.
Ég ók frá Höfn áleiðis í Suðursveit. Þegar ég var kominn inn undir Þveit, byrjuðu að koma truflanir í útvarpið. Eftir það gat ég ýmist mjög illa eða alls ekki greint orðaskil. Í bílnum hjá mér er útvarp sem leitar sjálft að besta styrk hverrar stöðvar eins og margir eflaust þekkja. Útvarpið fór greinilega að leita af og til en ekki lagaðist útsendingin. Svona er þetta ástand búið að vera frá því ég man eftir mér fljótlega upp úr miðri síðustu öld.
Ég er búinn að eyða stórum hluta af 4 síðustu áratugum úti á sjó á alls kyns fiskiskipum. Það er alveg sama hvar á hafinu innan íslensku lögsögunnar maður er staddur. Nánast alls staðar heyrist betur og skýrar í útvarpi allra landsmanna en hér á Austur-Skaftafellssýslu. Þetta er algerlega óviðunandi ástand. Ég ljáði máls á þessu við frambjóðendur hér fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Allir brostu þeir sínu blíðasta og samsinntu mér fullkomlega. Það er kannske ekki við þá að sakast í þessu efni nema að hluta til. Þeir eiga auðvitað að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins og þeir virtust allir sem einn gera sér fullkomna grein fyrir þessu slæma ástandi í fjarskiptamálum í Héraðinu. Það er hreinasta fjárnám eða kannske réttara að kalla það rán, að íbúar hér í héraði skuli vera neyddir til að greiða yfirleitt afnotagjöld af því sem þeir ekki geta notið með sæmilega mannsæmandi hætti. Ég veit svo sannarlega ekki hvað dópsalar og morðingjar á Litla-Hrauni mundu segja, sætu þeir við sama borð í fjarskiptamálum og Austur-Skaftfellingar. Mér segir svo hugur að þeirra mannréttindi séu hærra skrifuð en bændakurfanna í Suðursveit og þeirra spúsa. Svo mikið veit ég þó, að hafi ástandið á Kvíabryggju verið svona slæmt þegar einn af okkar núverandi fulltrúum á löggjafarsamkundunni bjó þar, væri þar komið háhraðatengt ríkisútvarp með myndsíma og alles. Ég geri mér bara ekki grein fyrir, hvernig í andskotanum maður á að fá úr þessu bætt. Eru okkar pólitíkusar svona miklu slakari þrýstihópur en aðrir sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni eða er þetta bara svona almennt um landið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:27 | Facebook
Athugasemdir
Beggi minn er útvarpið eitkvað bilað í bílnum þínum . Ég get hlustað á rás 2 út að Fagurhólsmýri án truflana.en símasambadið er ekki eins gott. óli
Ólafur Þór Guðjónsson, 24.9.2007 kl. 21:49
Þá eru útvörpin í síðustu þremur bílum hjá mér biluð Óli. Ég missi rás 2 við Bjarnanes og heyri ekkert meir fyrr en vestan við Sel. Sama með rás 1. Útvarpið hjá mér finnur ekki þessar stöðvar með góðu móti. Hinsvega kemur alltaf inn einhver stöð 102,1 sem ég veit ekkert hvað er.
Þórbergur Torfason, 24.9.2007 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.