4.10.2007 | 21:28
Stefnumálin rædd.
Ég var einn af þeim sem horfði á umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Kannske er að bera í bakkafullan lækinn, að tjá sig um það hér, en þó. Nokkur orð drepa ykkur varla lesendur góðir.
Eins og fram hefur komið víða, var stefnuræðan fremur efnislítil, orðmörg en innihaldsrýr. Umræðan var á köflum nokkuð jarðbundin og málefnaleg fannst mér. Steingrímur var að vanda, góður þó kannske helst til eintóna. Guðni kom nokkuð þægilega á óvart. Hann kann enn að vera í stjórnarandstöðu og mismælti sig ekki. Það sem uppúr stendur eftir kvöldið, var þessi óaflátanlegi stríðsdans landsogsjávarútvegsráðherrans. Það var eins og hann hefði fengið piparúða í gumpinn áður en hann sté í pontu. Kannske var einhver fótapirringur að hrjá hann kallinn. Leiðinlegt þótti mér að horfa á ráðherrana sem sátu hjá alveg að drepast úr leiðindum samanber fjármálaráðherrann sem leitaði prentvillna í nýjustu skáldsögu sinni nánast allan tímann sem umræðurnar stóðu. Heilbrigðisráðherrann sem augljóslega er orðinn forfallinn spilasjúklingur. Gott fyrir heilbrigðiskerfið að hann trukkprófi þá meferðarstofnun. Leiðinlegast fannst mér auglýsingaherferð iðnaðarráðherrans á íslensku neftóbaki. Veit ekki vesalings maðurinn að það er bannað að auglýsa tóbak. Þetta fannst mér afskaplega klént af honum og í framhaldi af því. Neftóbak er ekki hótinu betra að umbera en vindla eða vindlingareyk. Þess vegna er alveg sjálfsagt að banna notkun þess á sömu forsendum og annað tóbak.
Að lokum. Flóttamannahjálpin sem býður 200.000.- hverjum þeim sem þorir að leggja upp laupana. Þetta er einhver mesti skandall Íslandssögunnar. Er ekki nóg komið af hvatningu til fólks að flykkjast af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Hvaða fábjána datt þesi endaleysa í hug? Ég bara spyr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.10.2007 kl. 12:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.