Söguskýring:

Ég hef átt leið um Þjóðveg 1 í sumar. Sérstaklega leiðina milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Tilefni þess að ég læt þess getið er, að eigi fyrir alls löngu gerðist samgönguráðherra vor þyrstur mjög í mjöð einn göróttan og til að svala nú þorsta sínum á kostnað skattborgaranna, tók hann það til bragðs að lýsa yfir gsm væddum þjóðvegi 1. Svo mikill var þorstinn að rekinn var niður staur í "Norðurárdal", ekki veit ég hvorum en um báða liggur þjóðvegur 1 og tappi sleginn úr ámu á "staðnum". Á staur þennan, sem líklega hefur svipaðan eiginleika og öndvegissúlur til forna, var hengdur belgur einn sem varpa skyldi gsm merkjum um gervallan hringveginn í einu snarhasti svo ráðherra samgöngumála gæti haldið sínu yndisfríða litarafti. Samkvæmt minni reynslu, getur samgönguráðherrann hresst upp á litaraft síns andlitis alloft án þess að bera frekari kinnroða vegna þess að um 15% leiðarinnar, Höfn-Reykjavík er ennþá sambandslaus við símakerfið gsm. Á skilti fyrir ofan Reykjaví stendur "Höfn 440 KM". Það þýðir að milli 60 og 70 km. á þessari leið eru án gsm sambands.

Ekki græt ég mikið skort á símsambandi á þjóðvegi 1 þó mér finnist gáleysislegt af yfirvöldum að falsa svona staðreyndirnar. Hitt er öllu verra að í sveitarfélaginu Hornafirði eru öll fjarskipti í megnasta ólestri. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar vakti ég athygli frambjóðenda á þessu og fékk að launum mikinn halelújakór, samtóna um úrbætur í snatri. Enn hefur ekkert gerst, ríkisútvarpið heyrist stórum og strjálum með braki og brestum, sjónvarp skilst mér að sé ekki horfandi á til sveita og síðan gsm sambandið höktandi eins og gömul farandkona til forna, þ.e. óvíst hvort kemst til byggða.

Semsagt framundan von um mikið húllumhæ hjá Brennivínsnef ráðherra.

Einu má svo ekki gleyma sem gæti kætt ráðherran enn frekar. Það er vegurinn yfir Hornafjarðarfljót sem velkist milli þúfna eins og blindfullur prófastur með þeim afleiðingum að hvorki gengur né rekur í samgöngumálum héraðsins. Íbúarnir hér hafa vænst þess að á þessum málum yrði tekið í mótvægisaðgerðum sjálftökukórsins en ekkert er að gerast, nema síður sé. Ég vil endilega benda ráðherranum á að þarna bíða margar borðaklippingar og skálarræður.

Ég sem hélt að þegar forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar væri kominn á feitan bitling hjá krathaldinu, færi nú kannske eitthvað að gerast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Mikil er trú þín kona. Þ.e ef þú treystir á kratana.

Víðir Benediktsson, 4.9.2008 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband