Langur kveikiþráður?

Nei ekki svo, vinnan verður bara þess valdandi að dagblöðin liggja ekki alltaf opin fyrir framan mig.

Í kvöld komst ég til að fletta Fréttablaði gærdagsins. Á forsíðu er skrifað um "óviðunandi ógn við ráðherra". Í niðurlagi greinarinnar er vitnað í ummæli forseta alþingis. Þar segir, "það er ekkert óeðlilegt við það að almenningur mótmæli og tjái afstöðu sína til þessa alvarlega ástands sem hefur skapast í samfélaginuen við verðum að trúa því að á Íslandi geti áfram verið samfélag þar sem jafnt almenningur sem stjórnvöld eigi gott skjól".

Gott og vel, það er nauðsynlegt að blaðamenn taki viðtöl við stjórnmálamenn og bráðnauðsynlegt að blaðamenn hafi orðrétt eftir sem ég efast ekkert um að þarna hafi verið gert. Það sýnir okkur lesendum betur hug stjórnmálamannanna. Það sem ég vil benda á og sker mig í augun í ummælum forseta alþingis er tvennt. Í fyrsta lagi það að hann skuli líta á ástandið í þjóðfélaginu sem "sköpunarverk". Þá spyr ég, hver er "skaparinn"? Öðruvísi er ekki hægt að spyrja. Í öðru lagi, "að Ísland geti áfram verið samfélag þar sem jafnt almenningur sem stjórnvöld eigi gott skjól". Þarna get ég heilshugar tekið undir með hæstvirtum forseta Sturlu Böðvarssyni. Vandamálið er bara það að koma stjórnvöldum í skilning um að almenningur vill ekki veita þessum stjórnvöldum skjól lengur. Ég held unglingarnir kalli það að "kóa". Það eru ekki bara þessir fáu sem mættu fyrir framan þinghúsið í gærmorgun sem eru á þessum buxunum heldur langstærsti hluti kosningabærra Íslendinga.

Málið er nefnilega það að stjórnvöld þau sem nú sitja og eins þau sem setið hafa undanfarin kjörtímabil hafa gert sér það að leik, já ég endurtek, að leik að rífa skjólshúsið ofan af almenningi í þessu landi. Þess vegna er ég alveg hjartanlega sammála Sturlu að þarna þarf að nást sátt. 43 einstaklingar gegn rest. Þetta er frekar ójafn leikur og höfum við þó talið okkur búa við lýðræði. Mig langar til að beina þeirri spurningu til Sturlu, af því ég veit að einhver lýðræðissinni kemur henni til hans. Á hvaða hátt eigum við að ná sátt? Hvaða leið er fær? Ég endurtek 43 gegn rest getur það gengið.

Á innsíðu er svo vitnað í annan forseta nefnilega forseta ASÍ. Þar segir Gylfi Arnbjörnsson að ASÍ hafi fundað sérstaklega með forsætisráðherra til að gera honum grein fyrir því að engin önnur leið sé fær en að ríkisstjórnin stokki upp í sínum röðum, seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins." Ef einhver vinnufriður á að nást verður að byggja upp ímyndina," segir Gylfi.

Ég hef ekki hugmynd um hve margir félagsmenn ASÍ stikuðu "sérstaklega" á fund Forsætisráðherra. Hitt kemur mér mjög á óvart, að ASÍ skuli vera farið að reka auglýsingastofu eða sérstaka greiningadeild fyrir ríkisstjórnina. Skyldu félagsmenn í ASÍ vita af þessari starfsemi? Skyldi hún vera ábatasöm?

Já maður spyr sig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband