Ísland til Evrópu?

Nú stendur yfir, endurtekinn þáttur Silfur Egils. Þar er verið að ræða um kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið. Ef ég skil málið rétt, er þessi umræða svona hávær þessa stundina af þeirri ástæðu að efnahagsleg vá er fyrir dyrum, skuldir okkar Íslendinga eru í svimandi upphæðum, sjávaraflinn í sögulegu lágmarki og verðlag á matvöru hefur hækkað ótæpilega. Eini ljósi punkturinn í myrkrinu virðist vera sá að ríkissjóður standi mjög vel. Af hverju skyldi það nú stafa?

Ein staðreynd hefur ekkert verið rædd opinberlega í tengslum við inngöngu og þá upptöku evru. Hún er sú hvað áhrif það hefði á verðlag á nauðsynjavöru hér. Reynsla margra landa sem þarna hafa gengið inn er mjög slæm fyrir almenning. Í löndum suður Evrópu svo sem Spáni og Ítalíu hefur verðlag á nauðsynjavöru tekið margfalt heljarstökk upp á við. Verður sama sagan hér? Þessu er nauðsynlegt að svara.

Spurningarnar sem brenna á vörum almennings hljóta að vera eitthvað á þessa leið. Hvað verður um þessar gífurlegu skuldir heimilanna, hvað með okurvextina sem duldir eru með verðbótum og hvað með verðlag almennt?

Eru stuðningmenn aðildar virkilega svo djarfir að reyna að blekkja þjóðina með fölskum gylliboðum um að með töfrasprota verði hægt að láta ofantalið böl hverfa með einu jái líkt og óbreytt vinnukona fyrr á árum gat vænst þess að verða húsfreyja á einhverju örreitskoti með einu jái fyrir altarinu?

Eða er Evrópusambandið virkilega töframeðalið, þetta bólgueyðandi krem sem við þurfum til að halda jafnvægi sem "frjáls" þjóð?

Eða getur verið að þjóðarbúskapnum sé svona hræðilega illa stjórnað?

Það er æði margt sem bendir til þess að á höfuðbólinu hafi setið búskussar undanfarna áratugi. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar skarni er bara borinn á bæjarhólinn en ekki á allar hundaþúfurnar á höfuðbólinu. Framferði og svör þau sem húskarlarnir á býlinu gefa við jafn einföldum spurningum eins og af hverju ekki sé tekið til umræðu, þingmannafrumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um sjálftökulaun æðstu embættismanna ríkisins gera það að verkum að almenningur í landinu getur ekki með nokkru móti treyst þessum kónum fyrir áburðarskammtinum á túnin í vor. Afurðir kotanna fara hraðminnkandi ár frá ári en nokkrir ráðsmenn á hjáleigum höfuðbýlisins hafa gengið fram með þvílíku offorsi í að rukka inn leiguskuldir kotbændanna að þeir eru löngu sligaðir undan okinu. Á einfaldri íslensku þýðir þetta GRÍÐARLEG MISSKIPTING. Losnum við við okrið með inngöngu í Evrópusambandið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Við erum fyrst og síðast Lónmenn og Suðursveitungar. Mikilvægast að rækta garðinn sinn. En þar sem við erum "sósialistar" og hugsum ekki bara um okkar eigið hreiður þá erum við líka Skaftfellingar (Hornfirpingar), Íslendingar, Norðurlandabúar, Evrópubúar og heimsborgarar. Við þurfum því líka að vera virkir í sveitarstjórninni, landstjórninni, Norðurlandaráði, Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum.

VG er ekki alveg búið að vinna heimavinnuna í þessum málaflokki. Yfirleitt er þjóðernishyggja tengd hægri flokkum í Evrópu og sósíalistar hafa verið hörðustu stuðningsmenn lýðréttinda og samvinnu þjóða sem unnið hefur verið að undir merkjum ESB. Það hefur mér þótt stærstur galli á VG að þeir láta eins og þeir séu utan og ofan við þá hagsmuni sem að helst brenna á almenningi. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 19.3.2008 kl. 00:10

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Þar finnst mér þú hoppa fullhátt Gunnlaugur. ég hef hlustað á umræður islenskra stjórnmálamanna mjög lengi miðað við aldur og störf. (Oft á tíðum án útvarps og sjónvarps.) Það getur ekki verið að fram hjá þér hafi farið sú grunnhugmynd, að allt sé falt, einfaldlega ef nógu hátt sé boðið. Við vitum að það er ákveðinn slagur um rétt til að nýta allar orkuauðlindir sem fyrir finnast í veröldinni og auðlindir þær sem við höfum yfir að ráða, eru að öllum líkindum, þær allra dýrmætustu í víðri veröld ef miðað er við þær kröfur sem uppi eru nú um stundir. Ég ítreka samt, Eystra Horn er boðberi okkar þó leiðarinn sé yfirleitt dálítið kratískur. Leyfum hornfirskum sjónarmiðum að njóta sín án afskipta Framsóknar

Þórbergur Torfason, 19.3.2008 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband