Eitt stórt smámál.

Í dag var ég upplýstur um að við ættum von á mjög aukinni tíðni á skertri heyrn á komandi árum. Ein aðal ástæðan væru kaup Íslendinga á svokölluðum I-POD spilurum í Bandaríkjunum. Þeir eru með þeim annmörkum að á þeim er ekki hámark á hljóðstyrk sem þýðir að notendur eru ekki verndaðir fyrir hámarks styrk eins og á þeim I-POD spilurum sem framleiddir eru í Evrópu og vottaðir með CE merkinu. Þeir eru er mér sagt, innsiglaðir við 83 db (desíbil). sem er allnokkur hávaði til lengri tíma.


Fjarskiptamál í Austur-Skaftafellssýslu.

Á leið heim úr vinnunni í kvöld, eftir 22:00 fréttir, hófst þáttur á Rás 2. Viðtal við Ólaf Hauk Símonarson, mjög áhugavert allavega í byrjun. Líklega var þetta endurtekinn þáttur þó ég viti það ekki, nenni ekki að athuga það enda skiptir það engu máli í þessu samhengi.

Ég ók frá Höfn áleiðis í Suðursveit. Þegar ég var kominn inn undir Þveit, byrjuðu að koma truflanir í útvarpið. Eftir það gat ég ýmist mjög illa eða alls ekki greint orðaskil. Í bílnum hjá mér er útvarp sem leitar sjálft að besta styrk hverrar stöðvar eins og margir eflaust þekkja. Útvarpið fór greinilega að leita af og til en ekki lagaðist útsendingin. Svona er þetta ástand búið að vera frá því ég man eftir mér fljótlega upp úr miðri síðustu öld.

Ég er búinn að eyða stórum hluta af 4 síðustu áratugum úti á sjó á alls kyns fiskiskipum. Það er alveg sama hvar á hafinu innan íslensku lögsögunnar maður er staddur. Nánast alls staðar heyrist betur og skýrar í útvarpi allra landsmanna en hér á Austur-Skaftafellssýslu. Þetta er algerlega óviðunandi ástand. Ég ljáði máls á þessu við frambjóðendur hér fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Allir brostu þeir sínu blíðasta og samsinntu mér fullkomlega. Það er kannske ekki við þá að sakast í þessu efni nema að hluta til. Þeir eiga auðvitað að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins og þeir virtust allir sem einn gera sér fullkomna grein fyrir þessu slæma ástandi í fjarskiptamálum í Héraðinu. Það er hreinasta fjárnám eða kannske réttara að kalla það rán, að íbúar hér í héraði skuli vera neyddir til að greiða yfirleitt afnotagjöld af því sem þeir ekki geta notið með sæmilega mannsæmandi hætti. Ég veit svo sannarlega ekki hvað dópsalar og morðingjar á Litla-Hrauni mundu segja, sætu þeir við sama borð í fjarskiptamálum og Austur-Skaftfellingar. Mér segir svo hugur að þeirra mannréttindi séu hærra skrifuð en bændakurfanna í Suðursveit og þeirra spúsa. Svo mikið veit ég þó, að hafi ástandið á Kvíabryggju verið svona slæmt þegar einn af okkar núverandi fulltrúum á löggjafarsamkundunni bjó þar, væri þar komið háhraðatengt ríkisútvarp með myndsíma og alles. Ég geri mér bara ekki grein fyrir, hvernig í andskotanum maður á að fá úr þessu bætt. Eru okkar pólitíkusar svona miklu slakari þrýstihópur en aðrir sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni eða er þetta bara svona almennt um landið?


Slegið á frest.

Ég hef tekið þá ákvörðun að gerast ekki brotlegur við landslög fyrr en þessir furðu dóma dómarar eru hættir störfum eða forsendum dóma í lögum hefur verið breytt eða eins og mér sýnist bloggheimur dæma, þessir dómarar hafi lært heima. Það er enginn séns takandi á því að brjóta af sér en fá svo einhvern furðufugladóm fyrir. Nei takk ekki ég.

Lög og réttur.

Er ég að skilja þetta rétt? Er lögreglan að áminna veitingahúsarekendur fyrir að brjóta lög? Er hægt að stunda lögbrot með áminningarétti? Eru þetta ekki eiginlega alveg makalaus vinnubrögð? Ég sem hélt að allir þegnar þessa lands væru jafnir fyrir lögum. Er ekki eitthvað veitingahús munaðarlaust?

Esperanto

Félag Esperantista heldur málþing í Þórbergssetri nú um helgina. Af þeim sem þar eru mættir vil ég telja þau Auðunn Braga Sveinsson, Hallgrím Sæmundsson og Vilborgu Dagbjartsdóttur. Þetta eru allt fyrrverandi kennarar hver á sínu landshorni ef svo má segja og mjög gaman að sjá þau þarna saman komin hvert með sitt innlegg í þetta málþing. Vilborg fór þarna með mjög fallegt ljóð sem ég reyni að láta fylgja.

 

Hljóðlega.

 

Hljóðlega gengur hauströkkrið

í hús mitt.

 

Eins og gömul amma

á sauðskinnsskóm

í svörtu klæðispilsi

með mórenda svuntu

grá hyrnan krossbundin.

 

Hún á sæti í horninu

við herbergisgluggann.

 

Taktfast stígur hún rokkinn sinn.

 

Spunahljóðið

rennur saman

við umferðarniðinn

utan úr borginni.

 

Síkvik

hjúfrandi

kyrrð

umvefur

allt.


Sumarið.

Hér í Suðursveit gengur lífið sinn vanagang eins og í öðrum sveitum landsins. Ekki veit ég nú vel hvort leikmenn bloggsins kunna að meta fjósaykt eða önnur kennileiti íslensks landbúnaðar. Svo mikið er víst að eftir áratuga flæking um landið og miðin, var þráin eftir gömlu skítalyktinni allri ævintýramennsku yfirsterkari svo hér er ég kominn "heim í heiðardalinn" eða þannig. Við höfum reynt ofurlítið við hefðundnar silungsveiðar í sumar með heldur slökum árangri. Hér á árum áður var geysimikil bleikjuveiði hér, sannkölluð matarkista. Nú ber svo við, að í stykkjatali fáum við jafnmikið af ósalúru og við fengum af bleikju fyrir 5-10 árum. Þetta er flatfisktegund sem virðist vera að nema hér land í allmiklum mæli. Að öðru leyti drýpur hér smjör af hverju strái eins og gert hefur frá því frönsku skúturnar báru hér skonrok og konjakk á sandana fyrr á öldum. Hér er feiknagóð berjaspretta, bæði krækiber og bláber. Svo er hér ótalmargt að skoða eins og lesendur væntanlega vita allt frá Jökulsárlóni þar sem hægt er að fara í siglingu innan um boldangsborgarísjaka og ná sér í ósýnilegan ís út í viskíið, heimsækja Þórbergssetur þar sem sagan er varðveitt í formi frásagna, mynda og sýningar, bruna upp á Vatnajökul á snjósleðum eða fallajeppum og gista síðan við gott atlæti á hinum ýmsu ferðaþjónustubæjum í sveitinni. Fallegasti tími ársins fer senn í hönd. Það er þegar haustlitirnir byrja að taka yfir í náttúrunni. Þá skartar Suðursveit sínu fegursta líkt og allt landið.


Nauðganir:

Á ferðinni virðist þarfari umræða en undanfarið hefur riðið bloggheimum. Þar er sumsé umræðan um þetta lyf, Flunitrazepam. Ef ég skil rétt, er þetta svefnlyf með þeim hliðarverkunum að neytandinn fellur í tímabundið óminnisástand. Svo virðist sem einhverjir óprúttnir noti þetta lyf til að misnota konur. Ef, og ég segi "ef" vegna vanþekkingar minnar á sögunni, þetta er vitað og það í mörgum tilvikum og þetta lyf hefur hliðstæður í læknisfræðilegum tilgangi, af hverju í ósköpunum er ekki búið að loka fyrir sölu (afhendingu) á því? Ef það er þetta lyf sem hefur verið misnotað með þessum hræðilegu afleiðingum undanfarin ár. Ég minnist frásagnar af konu sem var nauðgað af nokkrum mönnum ef ég man rétt í húsasundi í miðbænum fyrir nokkrum árum. Þeirri sögu fylgdi lýsing svipuð þessari þ.e. óminnisástand í einhvern tíma. Er verið að tala um sömu aðferð í því tilviki? Ef svo er, finnst mér furðu sæta að þetta lyf skuli ennþá vera aðgengilegt á markaði.

Þetta mál og þá fyrst og fremst framvísun á þessu lyfi verður að komast í algeran forgang í þjóðfélaginu. STRAX en ekki seinna.


Að skjóta sig í báða fætur.

Meðan strákarnir þæfa leðrið milli sín er ágætt að nota annað augað til að lesa áhugaverðar færslur. Það fyrsta sem ég hnaut um var pistill eftir Helgu Sigrúnu Harðardóttur sem titlar sig framsóknar eitthvað. Og ég sem hélt að framsókn eitthvað væri ekki lengur til. Þar kemur hún inn á siðferði stjórnmálamanna en þar skýtur hún sig í báða fætur í sama skotinu. Ef hún hefði birt hliðstæð ummæli meðan eitthvað var til sem hét framsókn, hefði hún hitt naglan á höfuðið því á þeim árum var barasta ekkert til sem hét siðferði í stjórnmálum á Íslandi. Það er oft þægilegra að meðhöndla flísar en bjálka, það vitum við bændur og búalið af reynslu við girðingastaurana sem höggnir eru úr rekavið og öðru tilfallandi efni. Helgu vegna vona ég að hún fjalli bara um heimilisköttinn í framtíðinni en alls ekki siðferði pólitíkusa annarra flokka. Égtek þó fram að ég er ekki krati.

Annað: Þetta með ölkælinn í Austurstræti liggur í augum uppi, sérstaklega þegar bent var á að Björn Ingi Hrafnsson hefði komið að þessu máli. Þarna er verið að minnka samkeppnina um þyrsta ferðalanga og borgarbúa því að samkeppni á engan rétt á sér ef ég þarf að taka þátt í henni. Þetta eru alkunn sannindi sem allir eiga að vita.


Ekkert annað að gera.

Þetta er víst kölluð dægrastytting eða eitthvað í þá veruna. Mikið er nú gaman að fikta í þesari tölvu. Nú ætla ég að gera tilraun númer 2 að senda færslu í bloggheima. Hér sit ég og get ekki mikið annað, rifbeinsbrotinn og lemstraður. Ég var samt hvorki á ballinu í Hrollaugsstöðum né Hofgarði. Nei ég bara datt með þessum afleiðingum. Jú Halli minn loksins fann ég aftur þessa síðu og sá að þú hafðir getið þér rétt til um upprunan. Eitthvað sé eg að verið er að óskapast yfir þvagprufu sem sótt var í óleyfi og eru um þann gerning skiptar skoðanir sem eðlilegt er. Aðalatriðið er og verður alltaf að taka þess háttar gerendur úr umferð og leggja þeim rækilega á minnið að þarna er verið að brjóta lög og leggja aðra vegfarendur í óþarfa lífshættu. Semsagt þarna er verið að leggja drög að slysi sem getur valdið allt frá skrámu til dauða á, ekki einum einstaklingi heldur hver veit hvað mörgum. Hver á refsing að vera?  Er þetta ekki tilraun til morðs af ásettu ráði? Ég segi já. Getur ölvað fólk skýlt sér á bak við ásigkomulagið? Ég segi nei aldeilis ekki. Er drykkjuskapur veiki? Ég segi nei fjarri lagi. Það er meira að segja mjög auðvelt að rökstyðja það.

Margt fleira fróðlegt hefur mátt lesa í kvöld og verður vonandi næstu kvöld


Upphafið

Nauðsynlegt er að taka þátt í allri þjóðmálaumræðunni en hér virðist hún helst fara fram. Maður veltir fyrir sér hvort þingdagar sem í hönd fara, nægi blóðþyrstum bloggurum til haustsins. Kannske verður einhver nothæf uppákoma sem hægt verður að kjamsa á allavega fram að þjóðhátíð. Verður ekki að vona það besta.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband