Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hátt og lágt.

Eitt sinn spjallaði ég við Pálma í Nettó um orðskrípið "lágvöruverð" (lágvöruverðsverslun). Hann var sammála mér um að þarna væri farið óþarflega frjálslega með samsetningu á orðum. Okkur kom saman um að nægilegt væri að tala um "lágverðsverslun" en ekki blanda "lágvöru" inn í umræðuna. Ef til vill eru sumar vörur í lágverðsverslunum, lágvörur að gæðum miðað við það sem best gerist en miðað við kaupgetu almennings, látum við það duga okkur alla jafnan. Dag eftir dag les maður í blöðum þetta leiðinda orðskrípi sem þýðir í raun að bæði séu vörurnar ódýrar og lélegar. Vilja lágverðsverslanir hafa á sér þann stimpil að vörurnar hjá þeim séu ódýrar af því þær séu lélegar? Að fenginni reynslu, samþykki ég ekki að Nettó sé að selja lélega vöru.

Jólaglaðningur.

Hérlendis er gefið út dagblað sem nefnist "24stundir" eða "sólarhringur" eins og Sigurður G Tómasson kallar það. Á baksíðu þess blaðs í morgun sá ég þá mestu gleðifrétt sem, en sem komið er, hefur glatt mig hvað mest fyrir þessi jól. Sumsé, íslenskir """athafnamenn""" ætla að styrkja kínverskan skipasmíðaiðnað. Gleði mín felst í því að þarna munu kínverskir skipasmiðir og iðnverkamenn á þeirra snærum, sjá fyrir endan á bágum lífskjörum sem hafa fylgt þeim til þessa dags.

Að sjálfsögðu munu íslensku """athafnamennirnir""" víkja að þeim góðum greiðslum fyrir greiðann eins og þeir hafa allsstaðar gert hvar sem þeir hafa komið og verið þiggjendur.

Ég trúi því að landslýður muni gleðjast með mér þegar hann gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að íslenska útrásin endi alla leið í Kína en þar mun víst vera talsverður skortur á að laun séu mannsæmandi en úr því munu hinir íslensku """athafnamenn""" bæta snarlega trúi ég.

Rétt þykir mér að við hinir sem ekki leggjum í svona framkvæmdir, heiðrum þessa landa okkar á eins veglegan hátt og okkur er unnt. Ég geri hér með þá kröfu til "sólarhringsins", að blaðið nafngeini þessa """menn""" svo við hin getum sýnt þeim hvað við berum mikla virðingu fyrir afli þeirra og áræði.

Að svo mæltu, óska ég landslýð öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að allir séu sáttir við sitt.


Hörmungarástand.

Það eru engar smá upphæðir sem lánastofnanir taka til sín í formi vaxta af yfirdráttarskuldum. Ekki að undra þótt þær sýni einhvern hagnað. Gaman væri að sjá hagnaðarmyndun innanlands sérstaklega hjá þeim.

Þetta er góðærið í sinni björtustu mynd.

Hvenær kemur að skuldadögunum.

Sitja þessir lánadrottnar ekki uppi með fullt af verðlausum fasteignum, handónýtum bílum eða bara með glatað fé?


mbl.is Yfirdráttarlán aldrei hærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófyrirleitnar og villandi fyrirsagnir.

Kjarasamningar í skugga þrenginga í efnahagslífi.

Þessa fyrirsögn má lesa á bloggi Deiglunnar.

Undanfarna mánuði hefur staðið yfir heilaþvottur sem SA (samtök atvinnulífsins) hafa staðið fyrir. Þvegnir og skrúbbaðir eins og sviðahausar, hafa verið heilar í höfðum verkalýðsforkólfa víðsvegar að af landinu, ég held bara allra sem einhverjar líkur eru á að komi nálægt þeim kjarasamningum sem eru í undirbúningi.

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að mér finnst liggja nokkuð ljóst fyrir að forsvarsmenn verkalýðsfélaga eru komnir inn í fílabeinsturn og fá ríflega greitt fyrir. Þeir eru orðnir hæstlaunuðu einstaklingar í sínu umhverfi og hafa þess vegna frekar eigin hagsmuna að gæta en umbjóðenda sinna.

Heilaþvotturinn hefur gengið alveg ágætlega og vert er að hrósa þeim sem halda á skrúbbnum í þetta sinn. Á sama tíma og alls kyns greiningadeildir víðs vegar um veröldina komast að þeirri niðurstöðu að hvergi í heiminum sé meiri velverð en hér, eru þvottakerlingarnar búnar að skrúbba svo verklega inn í heilabúið á viðsemjendunum að það er beinlínis allt í kaldakoli hér. Hér eiga atvinnurekendur ekki til hnífs né skeiðar og eru við það að loka sínum fyrirtækjum vegna óárans og illrar stöðu í hvívetna.

Ég bara spyr, hvers konar aumingjar eru þessir forsvarsmenn í verkalýðsforystunni? Ætla þeir einu sinni enn að láta vælukórinn valta yfir sig og sína umbjóðendur. Þeir sem koma að samningamálum fyrir verkalýðinn verða að gera sér grein fyrir að þeir eru ekki þarna vegna eigin launa, heldur launa umbjóðenda sinna.

Ég hef sagt áður og endurtek hér að lægstu launataxtar eiga að sjálfsögðu að hækka upp í 190.000.- strax ekki eftir 2 ár eða 3. Það að reyna að væla út lækkaða skattprósentu launa upp að einhverju lágmarki er bara tímasóun. Nær væri að fá hækkaðan persónafslátt, breytingu eða niðurfellingu á verðbótaþætti lána, niðurfellingu stimpilgjalda og ýmislegt sem kemur almenningi til góða. Þar með væri hægt að verja það að einungis lægstu laun hækkuðu í þetta sinn.

Mér er ekki fullkunnugt um hvernig forsvarsmenn verkalýðsfélaga semja um sín laun en ég legg til að launahækkanir þeim til handa þeirra verði fryst þar til 190.000,- kr. marki lágmarkslauna verður náð. Eftir það mætti gera sérstakan rammasamning um þeirra kaup og kjör.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband