15.12.2008 | 21:04
Sagan öll.
Nú styttist í að hausar fjúki. Ég spái því að ríkisstjórninni endist ekki aldur til að skilja við. Sérkennilegt að hugsa til þess að hægt sé að drepast án þess að taka síðasta andvarpið. Svona virkar hópeflið stundum. Skemmtilegast við þennan dauðdaga verður að enginn sorg eða söknuður mun ríkja á byggðu bóli þessa lands. Þeir einu sem munu bera sorg í hjarta verða jólasveinarnir 12 í ríkisstjórninni og sá 13. í Seðlabankanum. Leiðinlegt að þurfa að upplýsa lítil börnin um það svona rétt fyrir jólin að það séu til raunverulegir jólasveinar, ekki með hvítt og sítt skegg heldur nauðrakaðir, sumum sprettur varla heldur grön en hafa í staðinn kolsvarta sál. Blessuð börnin sem trúðu því að eitthvað væri satt af öllu blaðrinu um góðærið og velsældina. Vandasmt verður fyrir okkur foreldra að útskýra afleiðingar lyganna og prettanna sem viðhöfð hafa verið. Glansmyndir á biðstofunum, falskt brosið á gamblernum, öll umræðan þessa dagana. Pabbi af hverju er alltaf verið að tala um hrun? Af hverju er alltaf verið að tala um sökudólga? Af hverju er alltaf verið að tala við sömu mennina í fréttatímunum? Einu skýringarnar sem ég get gefið er að þetta séu hinir nýju jólasveinar. Þeir léku útrásarvíkingana manstu, á sama tíma og spaugstofan var að gera grín að víkingasveitinni hans Bjössa bangsjólasveins en nú er verið að láta þá leika alvörujólasveina. Þess vegna segja þeir aldrei neitt af viti þannig hafa jólasveinar alltaf leikið, þykjast ekki mega segja hvar þeir eiga heima, þykjast ekki mega segja hvaðan þeir koma, þykjast ekki mega kjafta frá leyndarmálinu um allt milli himins og jarðar, það gæti skaðað hópinn og einhver gerður höfðinu styttri fyrir lausmælgi.
Það er sannarlega vandlifað með lyginni og prettunum.
15.12.2008 | 04:38
Og enn gefurún:
Sagði presturinn á hnjánum við dánarbeð ríku ekkjunnar.
Svipaða sögu er að segja af þessari, þeirri alvesölustu ríkisstjórn sem setið hefur hér síðan þjóðin fékk sjálfstæði. Hvað er nú uppi á teningnum? Talan 7 náttúrlega. Einhver tala sem alls ekki er til á sexhyrningi. Það var svo sem auðvitað að þessir lúsablesar veldu eitthvað sem alls ekki er til í raunveruleikanum. Það er að framkvæma að kröfu þjóðarinnar, koma sér burt úr stjórnarráðinu, gefa þjóðinni það í jólagjöf að kosið verði um miðjan febrúar.
Það þarf engan framboðsfrest. Jólafrí þingsins dugir til að skipa á lista. Það þarf enga framboðsfundi. Þeir hafa allir farið fram og hefðu mátt vera miklu færri og styttri.
Framboðsfundir þeirra stjórnarþingmannanna Lúðvíks og Illuga í ríkissjónvarpinu keyrðu algerlega um þverbak. Báðir þessir "rauðhausar" lentu í því að verða valdir að einhverri mestu hneisu sem þjóðin hefur upplifað. Hneisu sem 3 núverandi stjórnmálaflokkar hafa orðið valdir að. Já atbeini framsóknarflokksins er alls ekki gleymdur og mun sennilega aldrei gleymast vegna þess að sögulegar heimildir í nútímanum glatast ekki. Eygló Harðardóttir fyrrum Hlíðardalsmær frá Vestmannaeyjum mærir framsóknarflokkinn í grein í Fréttablaðinu um helgina. Þar mælist hún eindregið til að misgjörðir flokksins verði grafnar og gleymdar um aldur og ævi. Samvinnusjóðurinn, rausnarleg gjöf þjóðarinnar þar sem Búnaðarbankinn var færður flokksfélögum í gylltum umbúðum í skiptum fyrir Landsbankann til íhaldsins og ýmsir aðrir bitlingar sem þessi þokkahópur tók sér meðan hann hafði aðstöðu til.
Rauðhausarnir Lúðvík löglærði og Illugi hagspekingur "lentu" ábyggilega alveg óvart í því að bæði elta svindlarana í aðrar heimsálfur og loka sjáandi auganu fyrir bölinu sem var að dynja yfir þjóðina frá ársbyrjun 2008 og jafnvel lengur, líklega frá þeim tíma sem Þingvallastjórnin var mynduð. Það er mikið gefandi fyrir alla þessa löglærðu og hagvönu í þinginu. Þeir geta hvorki sett lög sem halda vatni né vindi, né séð dag fram í tímann hvað hagfræði varðar.
Niðurstaðan hlýtur því að verða sú að þessir háleistar hundskist út úr þinghúsinu og út úr stjórnarráðinu. Nú er ekki tími til að bæta silkihúfum oná hausinn á hauslausum her. Veljum okkur nýja forystu. FRAM TIL ATLÖGU. KJÓSUM OKKUR NÝJA FORYSTU UM MIÐJAN FEBRÚAR.