30.11.2007 | 15:41
Ófyrirleitnar og villandi fyrirsagnir.
Kjarasamningar í skugga þrenginga í efnahagslífi.
Þessa fyrirsögn má lesa á bloggi Deiglunnar.
Undanfarna mánuði hefur staðið yfir heilaþvottur sem SA (samtök atvinnulífsins) hafa staðið fyrir. Þvegnir og skrúbbaðir eins og sviðahausar, hafa verið heilar í höfðum verkalýðsforkólfa víðsvegar að af landinu, ég held bara allra sem einhverjar líkur eru á að komi nálægt þeim kjarasamningum sem eru í undirbúningi.
Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að mér finnst liggja nokkuð ljóst fyrir að forsvarsmenn verkalýðsfélaga eru komnir inn í fílabeinsturn og fá ríflega greitt fyrir. Þeir eru orðnir hæstlaunuðu einstaklingar í sínu umhverfi og hafa þess vegna frekar eigin hagsmuna að gæta en umbjóðenda sinna.
Heilaþvotturinn hefur gengið alveg ágætlega og vert er að hrósa þeim sem halda á skrúbbnum í þetta sinn. Á sama tíma og alls kyns greiningadeildir víðs vegar um veröldina komast að þeirri niðurstöðu að hvergi í heiminum sé meiri velverð en hér, eru þvottakerlingarnar búnar að skrúbba svo verklega inn í heilabúið á viðsemjendunum að það er beinlínis allt í kaldakoli hér. Hér eiga atvinnurekendur ekki til hnífs né skeiðar og eru við það að loka sínum fyrirtækjum vegna óárans og illrar stöðu í hvívetna.
Ég bara spyr, hvers konar aumingjar eru þessir forsvarsmenn í verkalýðsforystunni? Ætla þeir einu sinni enn að láta vælukórinn valta yfir sig og sína umbjóðendur. Þeir sem koma að samningamálum fyrir verkalýðinn verða að gera sér grein fyrir að þeir eru ekki þarna vegna eigin launa, heldur launa umbjóðenda sinna.
Ég hef sagt áður og endurtek hér að lægstu launataxtar eiga að sjálfsögðu að hækka upp í 190.000.- strax ekki eftir 2 ár eða 3. Það að reyna að væla út lækkaða skattprósentu launa upp að einhverju lágmarki er bara tímasóun. Nær væri að fá hækkaðan persónafslátt, breytingu eða niðurfellingu á verðbótaþætti lána, niðurfellingu stimpilgjalda og ýmislegt sem kemur almenningi til góða. Þar með væri hægt að verja það að einungis lægstu laun hækkuðu í þetta sinn.
Mér er ekki fullkunnugt um hvernig forsvarsmenn verkalýðsfélaga semja um sín laun en ég legg til að launahækkanir þeim til handa þeirra verði fryst þar til 190.000,- kr. marki lágmarkslauna verður náð. Eftir það mætti gera sérstakan rammasamning um þeirra kaup og kjör.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:24 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill. Ég hallast nú á þá skoðun að ég mun aldrei fá greitt í samræmi við framlag mitt til þjóðfélagsins, en ég er tilbúin að berjast fyrir þá sem á eftir koma. Kær kveðja til þín
Ásdís Sigurðardóttir, 1.12.2007 kl. 00:13
Ásdís mín. Þiggjendur í dag, voru gerendur í gær. Það er gangur lífins. Ekki er hægt að gera ráð fyrir stöðugleika í veltu dagsins og gærdagsins. Svona er lífið.
Takk fyrir innlitið.
Þórbergur Torfason, 1.12.2007 kl. 02:55
Gallinn við verkalýðsleiðtoga í dag er að þeir hafa ekki hugsjónir, þeir eru í þægilegri vinnu og gæta sinna hagsmuna.
Ég hef lengi verið inn á þeirri skoðun t.d. að þegar farið er í verkfall þá verði leiðtogarni launalausir eins og þeir sem sitja heima og bíða eftir því að forustan hefur verið tekin í bor....
Er það t.a.m. trúverðugt þegar verkalýðsforingjar standa upp og segja berjumst bræður þar til yfir lýkur gefum ekkert eftir. Á meðan þiggja þeir sín laun og mikla yfirvinnu við samningagerð meðan hinn almenni launþegi lepur dauðan úr skel? Taka þarf þetta allt til endurskoðunar.
Með kveðju raulandi Bubba lagið ,,Stál og Hnífur".
Páll Jóhannesson, 1.12.2007 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.