12.11.2008 | 00:53
Mig langar að velta aðeins fyrir mér Evrópusambandinu.
Hvað er Evrópusambandið?
Svar! Allavega í mínum huga. Evrópusambandið samanstendur af 27 Evrópuþjóðum, hverri með sína sögu. Bak við þessar þjóðir standa 27 ríkisstjórnir og bak við hverja þeirra 6-10 stjórnmálaöfl. Það er vitað að óeining er innan sambandsins, meðal annars mikil ólga í ríkjum Suður Evrópu vegna verðlagsþróunar á neysluvörum. Okkur væri hollt að kynna okkur þróun verðlags í þessum löndum og þá helst að grafast fyrir um ástæðuna fyrir verðhækkunum.
Ég velti fyrir mér hvaða erindi við Íslendingar eigum í þetta "samband". Ég spái því að það verði sprungið innan 10 ára. Er eftirsóknarvert að vera þáttakandi í að reka milljónaborg (Brussel) sem er full af bírópennavopnuðu fólki sem er á ofurlaunum við að semja einhverja dellu sem þessar aumingja þjóðum er gert skylt að undirgangast. Það er reyndar vitað, og hefur verið í nokkur ár að regluverk Evrópusambandsins er miklu virkara hérlendis en hjá aðildarþjóðunum. Ef grannt er skoðað, heyrir til undantekninga ef þessar reglur eru virtar.
Mér finnst óhugsandi að fara þarna inn og þurfa að undirgangast þær kvaðir sem lagðar eru á þessar þjóðir, allavega þær sem eru virtar og virkar.
Við erum ein auðugasta þjóð í heimi og það að afsala okkur þeim auði, haugsugum eins og Mið Evrópuþjóðunum er ekki kostur sem við eigum að velta fyrir okkur. Við eigum að virkja okkar auðlindir sjálfir.
Við eigum að henda okkar handónýtu ríkisstjórn og öllum hennar viðhengjum, kjósa nýtt þing að fenginni biturri reynslu og láta okkur að kenningu verða gjörspillta stjórnmálamenn og ekki gleyma viðgjörningi framsóknarflokksins í þeirri veislu.
8.10.2008 | 22:16
Furðuleg ummæli bankastjórans.
Í fréttum RUV. kl. 22:00 var birt brot úr viðtali við Sigurjón bankastjóra Landsbankans. Hann lýsti furðu sinni á viðbrögðum erlendra banka gagnvart vanda íslenska hvítflibba riddaraliðsins. Er ekki hver sjálfum sér næstur við aðstæður sem þessar? mér skilst ástandið í fjármálum alls heimsins vera svipað og Landsbankans þannig að líklega þurfa allir bankar, hvort sem þeir eru kallaðir seðlabankar eða viðskiptabankar á öllu sínu að halda.
8.10.2008 | 21:36
Nú er mál að linni.
Hafandi fylgst stopult með atburðarrás síðustu daga reikar hugurinn til baka til þess tíma þegar einkavæðingafárið reið yfir þjóð mína. Síðan hefur mikið gerst í heiminum, Íraksstríðið er manni ofarlega í huga og svo furðuleg taflmennska með forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar.
Í dag stendur íslensk þjóð frammi fyrir því að formenn sjálfstæðisflokksins (því þeir eru augljóslega tveir) véla um lausn á því hvernig þeir best geti farið með herfi og plóg yfir þann grafreit sem þeir tóku ásamt framsóknarflokknum með einkavæðingarofforsinu.
Þykir ykkur lesendur góðir, ekkert athugavert við það að núverandi seðlabankastjóri, sem allir hljóta að sjá að er einræðisherra yfir hverri þeirri ríkisstjórn sem sjálfstæðisflokkurinn er þáttakandi í, svo lengi sem hann lifir, skuli ásamt skósveini sínum og halelújabróður til áratuga véla sjálfir um afdrif sinna eigin stórfelldu glannalegu mistaka við einkavinavæðingu ríkisbankanna.
Ekki má gleyma því að helmingaskiptareglan var þarna allsráðndi þannig að framsóknarflokkurinn er af fullum þunga jafnábyrgur og jafnvel ábyrgari en yfirruðningsdeildin í sjálfstæðisflokknum.
Í dag horfa lndsmenn með sífellt meiri undrun á það hvernig í ósköpunum stendur á því að ákveðinnar tortryygni gætir hjá erlendum aðilum sem fjalla um hrun íslenska fjármálaundraheimsins. Er nema von þar sem "glæpamaðurinn rannsakar sinn eigin glæp" og ekkert bendir til annars en hann eigi líka að vera dómarinn.
Getur þetta virkilega verið raunverulegt, erum við ekki í miðjum draumi?
Ég sé fyrir mér nýja mynd um "Borat" tekna í kauphöll Íslands með seðlabankastjórana, fjámáleftirlitið og ríflega 3/4 þingheims klappandi hverjum öðrum á bakið, skakandi hendur hvers annars í vímu yfir hvað íslenski fjármálapíramídinn stendur lengi án nokkurrar undirstöðu.
Nú segjum við stopp, út með þessa kumpána, fáum alvöru kunnáttumenn til að fara yfir málið, byrja aftast og enda fremst þar sem ákvörðunin um hverjir fengju ríkisbankana var tekin og fáum forsendurnar upp á borðið.
Íslensk þjóð hefur heyrt forsætisseðlabankaráðherrann sverja af sér þáttökuna í svallveislunni kringum bankana. Látum á það reyna hvernig hlutlausir aðilar líta á málið frá byrjun.
6.10.2008 | 15:59
Afsögn; ekkert annað kemur til greina.
5.9.2008 | 10:44
Bólgur; orsakir og afleiðingar.
Leiðinlegir kvillar þessar bólgur. Þær virðast geta komið af minnsta tilefni, birst hvar sem er og haft langvinnar afleiðingar.
Sú versta bólga sem nú kvelur, ekki bara mig heldur "alla" landsmenn er helvítis verðbólgan. Leitum orsakanna. Af hverju stafar þessi verðbólga? Það held ég sé augljóst mál. Lítum á hvers hagur það er að viðhalda henni. Í fljótu bragði er ékki hægt að sjá að neinn hafi hag af henni nema bankarnir sem innheimta verðbætur af skuldugum viðskiptavinum. Skyldi það nú vera að verðbólgunni sé haldið við af þeim sem véla með peninga, þeim sem innheimta verðbætur? Er það virkilega þannig, að í staðinn fyrir ofsagróðann sem átti að ná með útrás bankanna en mistókst hrapalega, sé reynt að rétta af kúrsinn með því að viðhalda verðbólgu innanlands til að kroppa eitthvað upp í vonbrigði með misheppnaðar fjárfestingar í útlöndum eins og td. knattspyrnulið sem ekki pluma sig að ég tali nú ekki um gylliboð sem útrásarvíkingarnir eru að bjóða í útibúum sínum erlendis til að lokka að viðskiptavini. Þau gylliboð ku jafnast á við þau bestu sem boðin er í rauða hverfinu í elstu starfsgrein kvenna í heimi hér.
Það skyldi þó aldrei vera að verðbólgan sé bara manngerð með vitund og vilja hluthafa í hálfhrundum, einkavinavæddum fjármálastofnunum hér innanlands. Það er allavega alveg ljóst að utanaðkomandi aðstæður eiga lítinn sem engan þátt í þessum hamförum.
4.9.2008 | 11:42
Söguskýring:
Ég hef átt leið um Þjóðveg 1 í sumar. Sérstaklega leiðina milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Tilefni þess að ég læt þess getið er, að eigi fyrir alls löngu gerðist samgönguráðherra vor þyrstur mjög í mjöð einn göróttan og til að svala nú þorsta sínum á kostnað skattborgaranna, tók hann það til bragðs að lýsa yfir gsm væddum þjóðvegi 1. Svo mikill var þorstinn að rekinn var niður staur í "Norðurárdal", ekki veit ég hvorum en um báða liggur þjóðvegur 1 og tappi sleginn úr ámu á "staðnum". Á staur þennan, sem líklega hefur svipaðan eiginleika og öndvegissúlur til forna, var hengdur belgur einn sem varpa skyldi gsm merkjum um gervallan hringveginn í einu snarhasti svo ráðherra samgöngumála gæti haldið sínu yndisfríða litarafti. Samkvæmt minni reynslu, getur samgönguráðherrann hresst upp á litaraft síns andlitis alloft án þess að bera frekari kinnroða vegna þess að um 15% leiðarinnar, Höfn-Reykjavík er ennþá sambandslaus við símakerfið gsm. Á skilti fyrir ofan Reykjaví stendur "Höfn 440 KM". Það þýðir að milli 60 og 70 km. á þessari leið eru án gsm sambands.
Ekki græt ég mikið skort á símsambandi á þjóðvegi 1 þó mér finnist gáleysislegt af yfirvöldum að falsa svona staðreyndirnar. Hitt er öllu verra að í sveitarfélaginu Hornafirði eru öll fjarskipti í megnasta ólestri. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar vakti ég athygli frambjóðenda á þessu og fékk að launum mikinn halelújakór, samtóna um úrbætur í snatri. Enn hefur ekkert gerst, ríkisútvarpið heyrist stórum og strjálum með braki og brestum, sjónvarp skilst mér að sé ekki horfandi á til sveita og síðan gsm sambandið höktandi eins og gömul farandkona til forna, þ.e. óvíst hvort kemst til byggða.
Semsagt framundan von um mikið húllumhæ hjá Brennivínsnef ráðherra.
Einu má svo ekki gleyma sem gæti kætt ráðherran enn frekar. Það er vegurinn yfir Hornafjarðarfljót sem velkist milli þúfna eins og blindfullur prófastur með þeim afleiðingum að hvorki gengur né rekur í samgöngumálum héraðsins. Íbúarnir hér hafa vænst þess að á þessum málum yrði tekið í mótvægisaðgerðum sjálftökukórsins en ekkert er að gerast, nema síður sé. Ég vil endilega benda ráðherranum á að þarna bíða margar borðaklippingar og skálarræður.
Ég sem hélt að þegar forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar væri kominn á feitan bitling hjá krathaldinu, færi nú kannske eitthvað að gerast.
3.9.2008 | 13:05
Sjúkdómar!
Ýmsir kvillar eru á kreiki í umhverfinu. Ekki kann ég að sjúkdómagreina fyrrverandi borgarstjóra en greinilega hrjáir hann eitthvað í líkingu við valdasýki. Gott væri að fá orð yfir það hjá heilbrigðisyfirvöldum. Hvaða sjúkdómur nær yfir, bæði valdagræðgi, ofsóknarbrjálæði, minnimáttarkennd og fjölmiðlagræðgi. Maðurinn lætur teyma sig í útvarp og sjónvarp sí og æ og lætur hringsnúast inn og út með öll málefni sem einhverntíman hafa dúkkað upp á borð borgarstjórnar á þessari öld.
Annað viðkomandi borgarstjórn er flugvallarmálið. Hvenær varð Reykjavíkurflugvöllur eign borgarfulltrúanna í Reykjavík. Geta þessir grínleikarar ekki skilið það að þeim kemur Reykjavíkurflugvöllur andskotann ekkert við. Það erum við landsbyggðafólk sem notum þennan flugvöll en ekki borgarfulltrúar í Reykjavík eða borgarbúa yfirleitt. Látið þennan flugvöll í friði og hættið að eyða tíma í þetta stagl, bæði Ólafur Friðlausi og aðrir borgarfulltrúar.
Alvarlegasta kaun sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir í dag er þjónkun yfirvalda við eldsneytissalana. Þar er rænt og ruplað úr vösum fólks og fyrirtækja athugasemdalaust. Á virkilega ekki að koma höndum réttvísinnar yfir þetta helv. glæpahyski. Ég bara spyr vegna þess að mér blöskrar svo gersamlega verðlagið og aðgerðarleysið.
21.5.2008 | 23:41
Þvílíkur leikur maður minn.
Umheimurinn hefur líkast til aldrei áður upplifað aðra eins stemmningu á einum íþróttaleikvangi.
Ég fæ ekki mep orðum lýst almennilega, hvernig er að horfa á og upplifa þvílíka stemmningu. Sjálfur var ég ekki á vellinum, heldur var ég á Kaffi Láru hjá einni söguhetju þessa lands, ég þambandi öl en hann trommandi í barborðið, virkaði frekar taugaslappur. Ekki vegna leiksins eins og aðrir sem inni voru heldur frekar svona markaðsstressaður ef svo má segja. Hann importaði samt dável held ég. Allavega þynntist mitt veski verulega enda El Grillo mjög frambærilegur drykkur. Nú ekki má auglýsa hér, allra síst ef maður á hagsmuna að gæta svo stop nú. En leikurinn maður, þvílíkt meistarastykki. Auðvitað unnu meistararnir, annars hefðu einhverjir aðrir orðið meistarar nema hvað. Þessi leikur var þvílíkt augnayndi að seint mun gleymast. Fáir leikir hafa jafnast á við þennan nema ef vera skyldi einn sá ógleymanlegasti, nefnilega þegar staðam var 3-0 í hálfleik fyrir AC-Milan gegn Liverpool. Í þeim hálfleik urðu kaflaskil hjá báðum þeim liðum. AC. beið afhroð á öllum sviðum en veldi Liverpool reis á vissan hátt úr öskustó. Þþó hefur Öskubuska sú aldrei risið almennilega upp og þykir mér það miður eins og mjö mörgum öðrum aðdáendum knattspyrnu.
20.5.2008 | 20:37
Hvalakvalir.
Mér fannst láðsoglagarráðherranum farast vel úr munni að verja þá ákvörðun að veiða nokkrar hrefnur. Það er erfitt að skilja hversvegna krataráðherrar hópast á móti jafn sjálfsögðum hlut. Eru þeir virkilega svona illa skyni skroppnir að þeir skilji ekki nauðsyn þess að sýna umheiminum að við tökum ákvarðanir um framtíð okkar nytjaskepna, hvort sem um ræðir fugla, fiska eða hvali. Okkur á að vera sama hvaða álit morðóðir þjóðhöfðingjar hafa á því að við reynum að halda jafnvægi í nátturunni umhverfis okkur.
Ropurum úti í heimi væri nær að telja hve mörg mannslíf þau hafa á samviskunni eða hve margir mannslíkamar hafa verið afskræmdir fyrir þeirra eigin ákvarðanir sem af flestum munu í framtíðinni teljast annaðhvort teknar af græðgi, undir fjárhagsþvingunum eða beinlínis vegna heimsku.
20.5.2008 | 09:29
Hárrétt ákvörðun láðs og lagarráðherra.
Þó ekki væri nema til að auka samkeppni á matvælamarkaði hérlendis. Hrefnukvótinn hefði að ósekju mátt vera heldur meiri. Allt að hundrað dýr væri vel innan skynsemismarka. Vafalaust er full þörf á að fylgjast með uppsöfnun efna í holdi þessara dýra og til þess þyrfti að taka sýni allt umhverfis landið. Eins mætti skoða veiðar á öðrum hvalategundum.
Að sama skapi illskiljanlegt hvernig utanríkisráðherra hyggst halda til streitu að þjóðin eigi að lifa á að þýða reglugerðarfarganið frá Evrópusambandinu. Skyldi hún virkilega ætla okkur að éta pappírana frá þeim.
Hagsmunum fórnað með veiðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |