Hátt og lágt.

Eitt sinn spjallaði ég við Pálma í Nettó um orðskrípið "lágvöruverð" (lágvöruverðsverslun). Hann var sammála mér um að þarna væri farið óþarflega frjálslega með samsetningu á orðum. Okkur kom saman um að nægilegt væri að tala um "lágverðsverslun" en ekki blanda "lágvöru" inn í umræðuna. Ef til vill eru sumar vörur í lágverðsverslunum, lágvörur að gæðum miðað við það sem best gerist en miðað við kaupgetu almennings, látum við það duga okkur alla jafnan. Dag eftir dag les maður í blöðum þetta leiðinda orðskrípi sem þýðir í raun að bæði séu vörurnar ódýrar og lélegar. Vilja lágverðsverslanir hafa á sér þann stimpil að vörurnar hjá þeim séu ódýrar af því þær séu lélegar? Að fenginni reynslu, samþykki ég ekki að Nettó sé að selja lélega vöru.

Tvífarar:

Alltaf gaman þegar maður sér hjákátleg andlit á skjánum.

Þegar ég horfi á Silfur Egils (endurtekið), sé ég ótrúlega hjákátlegt andlit, brosa í austur og vestur með líkan aulasvip og þekktur leikari gerir oft á tíðum þegar hann vill gera sig heimskulega kjánalegan. Steve Martin, sem mér hefur aldrei fundist neitt sérstaklega dómínerandi leikari, virkar alltaf á mig sem hrópandi á off takkann á sýningartækinu. Á sama hátt, þegar presssonurinn úr Kópavoginum fór að brosa í austur og vestur, upp og niður, án þess að vita hvað væri svona broslegt, fékk ég mjög slæma tilfinningu fyrir síðustu máltíð. Maginn fór í hræðilegan hnút, snörist einhvernveginn eins og stundum gerist í bíó þegar maður álpast inn á second type mynd með lélegum leikurum. Er ekki einhver núlifandi krati betur til þess fallinn að mæta á skjáinn. Notum þennan kjánalega bara í útvarpið. Það eina sem bjargar þessari ömurlega heimskulegu umræðu er rauðvínið sem systir mín skildi eftir á bridgemótinu fyrir löngu síðan.


Hroki og hleypidómar

Undanfarnar vikur hefur manni fundist heldur niðurlægjandi að vera búsettur í Suðurkjördæmi, því kjördæmi sem réð núverandi fjármálaráðherra til starfa á alþingi í fjögur ár. Ef ég hefði staðið að ráðningu hans, væri ég búinn að segja honum upp störfum og uppsögnin hefði þegar tekið gildi. Varla hefur hann þó gert þá kröfu, að fá að verða Dómsmálaráðherra í 10 mínútur til að gjalda Davíð Oddssyni gamlan greiða þegar hann dró hann upp í stól Sjávarútvegsráðherra öllum til mikillar furðu, ekki síst samflokksmönnum þeirra long time ago. En gjalda skal greiða með greiða, er greinilega mottó Árna Mathiesen. Þess vegna tók hann að sér þessa ósvinnu að tosa bankastjórasoninn upp í dómarastólinn gegn vilja, hérumbil allra landsmanna. Máttlausar varnarræður Árna reynast innihaldslausar og fullar af hroka og minna helst á viðbrögð manns sem þjáist af minnimáttarkennd. Nær hefði garminum verið að játa hreinlega vinargreiðann sem hann skuldaði bankastjóranum. Nóg um það. Annar pestargemlingur hefur hrjáð og hrellt samstarfsmenn sína í ríkisstjórninni. Það er ofurbloggarinn og kjaftaskurinn, fyrrverandi samflokksmaður minn Össur nokkur Skarphéðinsson titlaður Iðnaðarráðherra. Munurinn á framkomu þessara tveggja ráðherra er mikill. Össur hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim "skál fyrir því" þó ef til vill sé álíka þægilegt að treysta á þær frá degi til dags eins og veðurfarið. Árni virðist ekki hafa neinar skoðanir nema þær, að hann vilji hafa skoðanir og fá að fara sínu fram, sýna hroka og stærilæti, bæði vinnuveitendum sínum sem og öðrum landsmönnum.


"Silfrið" dæmalausir sleggjudómar.

Ég hlustaði á Guðmund Ólafsson og Sigurð G. í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar féllu sleggjudómar á báða bóga, frá þáttastjórnanda og gestum. Einu hjó ég eftir hjá Guðmundi þessum annars skarpa manni sem ekki verður oft fótaskortur á rökvísinni. Að þessu sinni fór hann illilega yfir strikið og það verður honum ekki fyrirgefið alveg í bráð. Þar sagði hann eitthvað á þá leið að ákveðnir aðilar væru að verja steindauða náttúru landsins. Þó að Guðmundi sé mikið í mun að koma rammfölskum, sviknum sjónarmiðum Samfylkingar á framfæri, er alveg ótækt að tala um íslenska náttúru eins og steindautt fyrirbrigði. Ja betur færi nú að meira líf leyndist í skjólstæðingum Lobba á alþingi en býr í íslenskri náttúru. Þegar menn tala á þennan hátt, virðist engu skipta um skömm né heiður heldur er fræðimaðurinn kominn langan veg út fyrir sitt verksvið og í hvaða tilgangi nema að reyna að prédika rammfalskan áróður handónýtra liðleskja sem vilja láta taka sig alvarlega í pólitík. Mesta glappaskot þessa árs í óhróðri var þarna framið. Þegar talsmaður ákveðinnar pólitískrar stefnu ræðst svona harkalega á okkar langstærstu auðlind sem náttúran er, fallast mann gjörsamlega hendur. Það er alveg þýðingalaust fyrir Lobba að sverja Samfylkinguna af sér, svo hart hefur hann prédikað fyrir hennar hrærigraut frá stjórnarandstöðu til stjórnarsetu. Að öðru leyti kom margt fróðlegt og gagnlegt fram í spjalli þeirra félaga.


Tími til að endurnýja.

Fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður les þessa frétt, er að þarna hafi gleymst að endurnýja. Einungis 4 af 12 starfa ennþá. Ætli hinar 8 séu fallnar frá? Þetta lýsir nýtni Þjóðverja betur en nokkuð annað.
mbl.is Elsta vændishúsi Hamborgar lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagskrár vikunnar.

Vikan sem er að líða hefur verið sérlega skemmtileg fyrir okkur sem tengjumst meistara Þórbergi. Eftir að hafa hlýtt á dagskrá helgaða 120 ára ártíð Þórbergs í Hátíðarsal Háskóla Íslands og síðan í Þórbergssetri á afmælisdegi meistarans er maður bara stoltur af því að bera þetta mikla, sterka nafn.

Hvað um það. Ágætu lesendur, helgina 5.-6. apríl, verður haldið bridgemót í Þórbergssetri. Þetta mót er haldið í minningu föður okkar systkinanna frá Hala Torfa Steinþórssonar sem hélt uppi merki bridgeíþróttarinnar og reyndar flestra tegunda íþrótta hér í héraðinu í áratugi. Meiningin er að spila sveitakeppni á laugardegi og tvímenning á sunnudegi. Allir sem áhuga hafa á bridge eru hjartanlega velkomnir. Við munum halda á lofti hefð sem faðir okkar kom á fyrr á árum. Að hans frumkvæði var tekinn upp sá siður hér í Suðursveit að eitt kvöld á vetri var efnt til hrossakjötsveislu "sem sýnir kannske best hvaða íþróttir honum hugnuðust", meðfram hefðbundnu bridgekvöldi. Þennan sið vöktum við upp síðastliðinn vetur með góðum árangri. Við vonumst þó til að bæta um betur að þessu sinni og fjölga þáttakendum frá því í fyrra.

Næg gisting er í boði með því fæði sem óskað er. Nóg pláss er fyrir fleiri spilaborð í Þórbergssetri.

Upplýsingar er hægt að fá í Þórbergssetri í síma 478-1078 eða hjá undirrituðum í síma 899-2409. 


Ísland til Evrópu?

Nú stendur yfir, endurtekinn þáttur Silfur Egils. Þar er verið að ræða um kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið. Ef ég skil málið rétt, er þessi umræða svona hávær þessa stundina af þeirri ástæðu að efnahagsleg vá er fyrir dyrum, skuldir okkar Íslendinga eru í svimandi upphæðum, sjávaraflinn í sögulegu lágmarki og verðlag á matvöru hefur hækkað ótæpilega. Eini ljósi punkturinn í myrkrinu virðist vera sá að ríkissjóður standi mjög vel. Af hverju skyldi það nú stafa?

Ein staðreynd hefur ekkert verið rædd opinberlega í tengslum við inngöngu og þá upptöku evru. Hún er sú hvað áhrif það hefði á verðlag á nauðsynjavöru hér. Reynsla margra landa sem þarna hafa gengið inn er mjög slæm fyrir almenning. Í löndum suður Evrópu svo sem Spáni og Ítalíu hefur verðlag á nauðsynjavöru tekið margfalt heljarstökk upp á við. Verður sama sagan hér? Þessu er nauðsynlegt að svara.

Spurningarnar sem brenna á vörum almennings hljóta að vera eitthvað á þessa leið. Hvað verður um þessar gífurlegu skuldir heimilanna, hvað með okurvextina sem duldir eru með verðbótum og hvað með verðlag almennt?

Eru stuðningmenn aðildar virkilega svo djarfir að reyna að blekkja þjóðina með fölskum gylliboðum um að með töfrasprota verði hægt að láta ofantalið böl hverfa með einu jái líkt og óbreytt vinnukona fyrr á árum gat vænst þess að verða húsfreyja á einhverju örreitskoti með einu jái fyrir altarinu?

Eða er Evrópusambandið virkilega töframeðalið, þetta bólgueyðandi krem sem við þurfum til að halda jafnvægi sem "frjáls" þjóð?

Eða getur verið að þjóðarbúskapnum sé svona hræðilega illa stjórnað?

Það er æði margt sem bendir til þess að á höfuðbólinu hafi setið búskussar undanfarna áratugi. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar skarni er bara borinn á bæjarhólinn en ekki á allar hundaþúfurnar á höfuðbólinu. Framferði og svör þau sem húskarlarnir á býlinu gefa við jafn einföldum spurningum eins og af hverju ekki sé tekið til umræðu, þingmannafrumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um sjálftökulaun æðstu embættismanna ríkisins gera það að verkum að almenningur í landinu getur ekki með nokkru móti treyst þessum kónum fyrir áburðarskammtinum á túnin í vor. Afurðir kotanna fara hraðminnkandi ár frá ári en nokkrir ráðsmenn á hjáleigum höfuðbýlisins hafa gengið fram með þvílíku offorsi í að rukka inn leiguskuldir kotbændanna að þeir eru löngu sligaðir undan okinu. Á einfaldri íslensku þýðir þetta GRÍÐARLEG MISSKIPTING. Losnum við við okrið með inngöngu í Evrópusambandið?


Broslegar hörmungar í bæjarmálapólitíkinni.

Í reyðileysi, fór ég að hlusta á Silfur Egils og kastljósþætti frá síðustu viku. Alveg er með hreinum ólíkindum að hlusta á málsvörn sjálfstæðismanna varðandi skitugemlinginn Vilhjálm Þ. Byrjum á glókolli Gísla. Þráspurður af öðrum glókolli um hvort hann geti lýst stuðningi við Villa, svarar hann. Nei Vilhjálmur á að ákveða það hvort ég lýsi yfir stuðningi við hann eða ekki. Þ.e. Í þessum flokki, þ.e. borgarstjórnarflokki sjáfstæðismanna eru ekki teknar sjálfstæðar ákvarðanir. Svo mörg voru þau orð. Geir H. Haarde sagði orðrétt í Silfrinu. " Á síðasta landsfundi fékk ég 97% atkvæða í formannskjöri og Þorgerður Katrín 90%". Semsagt. Í þessum flokki skiptir fólk ekki um skoðun svo árum skiptir, þannig að stuðningur við forystuna er bara svona. Minnir þetta nokkuð á stjórnarfar í ónefndu austantjaldsríki fyrir ekki svo mörgum áratugum.

Allskyns hugmyndir hafa skotið upp kollinum að undanförnu varðandi launaþróun í landinu. Eina sá ég sem fjallaði um að sjálftökuliðið afsalaði sér hækkunum næstu 3 árin.

Ég geri að tillögu minni og vek upp kröfu sem ég gerði og mun koma til með að gera um mörg ókomin ár.

Sjálftökuliðið skili þeim hækkunum umfram almenning sem það hefur fengið síðustu 8 ár. Þar með talið mjög miklum okurhækkunum sem það tók sér í lok kjörtímabils 2003 upp á tugi % umfram almennar launahækkanir. Þá svívirðu geri ég kröfu um að verði skilað aftur í snatri. Þar fór fram rummungsþjófnaður úr ríkissjóði. Valgerður Bjarnadóttir varaþingmaður SF. flutti tillögu um þetta í þinginu sl. haust en síðan hefur ekki heyrst um þetta hósti né stuna frekar en annað bílífi sem ástundað er innan veggja þinghúss þjóðarinnar.

Skömm er að og ekki von til að virðing þjóðarinnar aukist meðan kjörnir fulltrúar seilast í sjóði almennings og troði út sína eigin vasa. Forstöðumönnum ríkisstofnana hefur verið vikið úr starfi fyrir að misfara með fé sinna stofnana. Þið þingmenn, hundskist til að vinna vinnuna ykkar sæmilega skammlaust og gætið að því að þið eruð einungis ráðnir í vinnu tímabundið. Þið hafið bara tímabundnu verkefni að sinna og getið ekki vænst þess að almenningur loki endalaust augunum fyrir glappaskotum ykkar þó einn og einn misheppnaður reykvískur tittur í sjálfstæðisflokknum þori ekki að taka sjálfstæða ákvörðun.


Nú kastar tólfunum, ekki postulunum þó!

Ekki er óalgengt að maður spyrji mann, hvernig fannst þér spaugstofan, þegar það hittist á sunnudögum. Ég orða þetta svona á jafnréttisgrundvelli. Sjálfur var ég að horfa á endursýningu áðan og í framhaldinu á Kastljós kvöldsins endursýnt. Hlustandi á Ólínu Þorvarðardóttur, datt mér fyrst í hug, viðbrögð leikhússtjóra Borgarleikhússins við dómi Jóns Viðars þar sem hann líkti einhverri sýningunni við jarðaför eða eitthvað álíka og gerði hann að arflausann. Jú samlíkingin á fullan rétt á sér Ólína sagði reyndar ekki að fyrir dyrum stæði jarðaför nýja borgarstjórans eða meirihlutans en hún byrjaði á að nálgast gagnrýnina á spaugstofuna á þeim nótum.

Ég nenni hreint ekki að lesa allt þetta endalausa pex sem virðist komið á mbl.is um þennan þátt en af fyrirsögnum að dæma, virðist fólk gleyma því hver ráðinn er í að leika aðalhlutverk nýjasta pólitíska farsa Íslandssögunnar. Nú ætla ég að taka mér það bessaleyfi og gerast gagnrýnandi og mér er skítsama þótt ég þurfi að kaupa minn aðgöngumiða að mbl.is á eftir.

Leikarinn sem lék aðalhlutverkið þ.e. Ólaf F Magnússon í Spaugstofunni, stóðsig alveg frábærlega eins og reyndar allir leikararnir Bingi, Villi, og hinir allir.

Pólitíkusar á Íslandi sem eru hörundsárir og þola illa svona meðferð, verða að gera sér grein fyrir því að um leið og þeir reyna að gera sig gildandi í þjóðfélaginu, gefa þeir út skotleyfi á sig bæði gagnvart fréttamönnum og spaugurum. Purkunarlaus tvöfeldni Ólafs F og ótrúleg "hérna" framkoma "hérna" Villa "hérna" viðutan "hérna" svo og ólýsanlegur fýlusvipur litlu krakkanna í biðröðinni eftir borgarstjórastólnum hjá íhaldinu eru einhver leiðinlegasta jarðaför sem ég hef orðið vitni að. Venjulega eru jarðafarir þrungnar sorg og miklum samhug nærstaddra en þessi var þrungin ólýsanlegum leiðindum og tvöfeldni sem einkenndist helst af fáráðsganginum kringum Ólaf F og sem spaugstofan speglaði fullkomlega nema hún breytti atvikinu úr leiðindum í skemmtun, ómælda skemmtun.

Takk fyrir skemmtunina SPAUGSTOFAN.

 


Stöndum saman allir sem einn.

Á þessum árstíma, kemur ekki á óvart þó gefin sé út tilkynning um að ófært sé um fjallvegi landsins. Í okkar strjálbýla,en þó fjölmenna landi, gerum við kröfu um að hægt sé að fara um, og þess vegna umhverfis landið okkar nokkuð óhindrað. Ófærð um Öxi og Breiðdalsheiði kemur okkur ekki mjög á óvart í dag enda yfir fjallvegi að fara. En hvað mundi það þýða ef farið væri undir en ekki yfir. Ég tel mig vita að tæknideildir samgöngumála horfi til framtíðar en ekki til baka eins og svo margir í okkar samfélagi.

Sjálfskipaðir vel greiddir snillingar í samgöngumálum eru búnir að ákveða að besta lausn til frambúðar sé að klífa hæstu tinda íslenskra fjalla, án tillits til þess hverjar afleiðingarnar eru og gefa dauðan og djöfulinn í alla aðra en þá sem hafa efni og ráðrúm á að aka um á 38' með drif á öllum.

Í okkar daglega amstri, er okkur sýnt fram á þá einföldu staðreynd, sem ég og að ég held við öll verðum að kyngja, að vaxandi ferðamannastraumur þýðir einfaldlega betri samgöngur, burtséð frá því hvort íbúar Djúpavogs komast í Bónus á Egilsstöðum á þriðjudögum eða föstudögum.

Því miður er til í dæminu að íbúar á þessu svæði, slái því fram að algert lykilatriði sé að paufast "yfir" Öxi í staðinn fyrir að grafa sig einfaldlega undir hana. Þetta sjónarmið er hreinlega til algerrar skammar og ekki til þess fallið að styrkja samstöðu landsbyggðarinnar. Í dag eru mjög sterkar líkur fyrir því að Sundabraut verði lögð undir sjávarmáli enda ekki hægt að líta fram hjá því, hvað jarðgangagerð er orðin tæknilega, fjárhagslega, umhverfislega og þægilega, mikið betri kostur en var fyrir bara nokkrum mánuðum.

 Upphefjum okkar samgöngusöng, syngjum saman Austfirðingar allir sem einn.

Lárétta vegi til allra átta ekki fjallvegi.

 

 

 


mbl.is Ófært um Öxi og Breiðdalsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband