7.12.2007 | 22:48
Mogginn fyrstur með fréttirnar.
6.12.2007 | 21:01
Þingfréttir úr Suðursveit.
Sælir lesendur góðir. Þótt ég sé í Suðursveit, halda þingstörf sínu striki við Austurvöll.
Í dag var umræða um eitt hitamálið sem manni sýnist helst að sé ekki búið að ná endanlegu hitastigi. Forsætisráðherra sté í pontu. Nei nei það er ekki hitamálið, heldur það mál sem hann vakti máls á það er að segja eignaumsýslan á Keflavíkurflugvelli. mikið óskaplega var það aumt yfirklór sem þarna var flutt fyrir alþjóð. Þetta mál er alveg stórfurðulegt.
Steininn tók þó algerlega úr í Kastljósþætti RUV áðan. Þar sátu andspænis hvort öðru, Atli Gíslason alþingismaður og hæstaréttarlögmaður, titill sem fer mjög fyrir brjóstið á stuttbuxnalögfæðingunum í þinginu og þingmaður sjálfstæðisflokksins, man ekki nafnið, fyrrum aðstoðarmaður fjármálaráðherra og forsætisráðherra.
Í umræðunum í þinginu í dag kom fram að ríkisendurskoðun ætlaði að fara í gegn um allt þetta undarlega mál. Í kastljósþættinum kom hins vegar fram að á einhverjum tímapunkti í sumar, hefði verið farið fram á úttekt af hendi ríkisendurskoðunar á þessu ferli öllu saman til að allt færi nú siðsamlega fram. Hafi sú úttekt farið fram einhverntíman síðsumars eða snemma í haust, ætti hún væntanlega að liggja fyrir. Hvers vegna er ríkisendurskoðun núna að fara af stað með að endurskoða málið? Er ríkisendurskoðun þar með að fara að endurskoða það sem hún var sjálf að leggja blessun sína yfir fyrir nokkrum dögum eða vikum? Hafi eitthvað fundist athugavert á einhverjum tímapunkti af stjórnskipuðu apparati eins og ríkisendurskoðun, hljóta upplýsingar þar um að hafa ratað til réttra aðila.
Lái Atla Gíslasyni alþingismanni og hæstaréttarlögmanni hver sem vill, þó hann dragi hæfi ríkisendurskoðanda í efa þegar málum er svona komið.
Þetta mál er einhver allra vitlausasta flækja sem íhaldið hefur komið sér í í manna minnum og er þó af nógu að taka.
Það er ekki ofsögum sagt að daunillt loft liggi yfir og leggur megnan óþefinn alla leið hingað í Suðursveit.
6.12.2007 | 00:58
Pirringur:
Skammdegi sígur að og komin jólafasta, sauðfjárbændur margir hverjir byrjaðir að fara með hrút í ærnar. Það kallast tilhleypingar í Suðursveit. Veðrið hefur verið rysjótt og því fylgja ýmsir kvillar svo sem eins og flensur sem lýsa sér í raddleysi sem kemur sér ákaflega illa fyrir söngfugla og ræðuskörunga, léleg akstursskilyrði á þjóðvegunumog ýmislegt sem maður lætur fara í taugarnar á sér í hversdagslegu amstri.
Eitt er þó sem hefur farið illilega í mínar þó svo þolinmóðu taugar að undanförnu. Það er þessi helvítis ómerkilegi andskotans límmiði sem hefur verið hengdur framan á forsíðu Morgunblaðsins að undanförnu. Þetta hefur valdið mér meiri vanlíðan en hálsbólga með tilheyrandi raddleysi og hóstakjöltum, sem líklega hefur valdið því að upptaka jólalaga hjá karlakórnum Jökli fóru gjörsamlega í súginn. Að framansögðu getið þið líklega ímyndað ykkur hvað helvítis límmiðinn gerir mér gramt í geði. Ef ég reyni að losa hann, ríf ég venjulega forsíðuna í tvennt, sem þar af leiðandi gerir það að verkum að hún er ólæsileg, eða hver nennir að lesa forsíðufréttir í tveimur pörtum. Ekki ég.
Ég fer ekki fram á mikið. Þið þarna í Reykjavík. Viljiði vinsamlegast halda þessum helvítis límmiðum innan borgarmarkanna. Þeir eiga ekkert erindi til okkar, allavega ekki hingað austur í Suðursveit.
1.12.2007 | 23:04
Þegar þörfin er stærst!!!
Já þá er hjálpin, sem betur fer stundum skammt undan. Svo sannarlega bjargaði þetta uppátæki þeirra félaga kvöldinu. Þeir aukaleikarar í spaugstofunni stóðu sig hver öðrum betur. Svona leikdóma sér maður oft í héraðsfréttablöðum þegar tekist hefur að draga einhvern rollubóndann upp á svið og gera úr honum persónu í einhverju stórvirkinu. Mesta snilldin var þó, að þeir Óttar, Kári og Sigurður Líndal skyldu bara leika sjálfa sig í sínum daglegu hlutverkum. Ekki sýndist mér þeim leiðast þetta, allra síst Kára þegar hann skilgreindi heila og heilalausa. Förum ekki nánar útí það.
30.11.2007 | 15:41
Ófyrirleitnar og villandi fyrirsagnir.
Kjarasamningar í skugga þrenginga í efnahagslífi.
Þessa fyrirsögn má lesa á bloggi Deiglunnar.
Undanfarna mánuði hefur staðið yfir heilaþvottur sem SA (samtök atvinnulífsins) hafa staðið fyrir. Þvegnir og skrúbbaðir eins og sviðahausar, hafa verið heilar í höfðum verkalýðsforkólfa víðsvegar að af landinu, ég held bara allra sem einhverjar líkur eru á að komi nálægt þeim kjarasamningum sem eru í undirbúningi.
Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að mér finnst liggja nokkuð ljóst fyrir að forsvarsmenn verkalýðsfélaga eru komnir inn í fílabeinsturn og fá ríflega greitt fyrir. Þeir eru orðnir hæstlaunuðu einstaklingar í sínu umhverfi og hafa þess vegna frekar eigin hagsmuna að gæta en umbjóðenda sinna.
Heilaþvotturinn hefur gengið alveg ágætlega og vert er að hrósa þeim sem halda á skrúbbnum í þetta sinn. Á sama tíma og alls kyns greiningadeildir víðs vegar um veröldina komast að þeirri niðurstöðu að hvergi í heiminum sé meiri velverð en hér, eru þvottakerlingarnar búnar að skrúbba svo verklega inn í heilabúið á viðsemjendunum að það er beinlínis allt í kaldakoli hér. Hér eiga atvinnurekendur ekki til hnífs né skeiðar og eru við það að loka sínum fyrirtækjum vegna óárans og illrar stöðu í hvívetna.
Ég bara spyr, hvers konar aumingjar eru þessir forsvarsmenn í verkalýðsforystunni? Ætla þeir einu sinni enn að láta vælukórinn valta yfir sig og sína umbjóðendur. Þeir sem koma að samningamálum fyrir verkalýðinn verða að gera sér grein fyrir að þeir eru ekki þarna vegna eigin launa, heldur launa umbjóðenda sinna.
Ég hef sagt áður og endurtek hér að lægstu launataxtar eiga að sjálfsögðu að hækka upp í 190.000.- strax ekki eftir 2 ár eða 3. Það að reyna að væla út lækkaða skattprósentu launa upp að einhverju lágmarki er bara tímasóun. Nær væri að fá hækkaðan persónafslátt, breytingu eða niðurfellingu á verðbótaþætti lána, niðurfellingu stimpilgjalda og ýmislegt sem kemur almenningi til góða. Þar með væri hægt að verja það að einungis lægstu laun hækkuðu í þetta sinn.
Mér er ekki fullkunnugt um hvernig forsvarsmenn verkalýðsfélaga semja um sín laun en ég legg til að launahækkanir þeim til handa þeirra verði fryst þar til 190.000,- kr. marki lágmarkslauna verður náð. Eftir það mætti gera sérstakan rammasamning um þeirra kaup og kjör.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.11.2007 | 21:15
Svo segir sagan.
Ég kann ekki við að kalla bók Guðna Ágústssonar ævisögu hann er nú ekki dauður enn. Svona bækur ættu að heita td. hluti af lífshlaupi mínu eða eitthvað í þá veru.
Hvað um það. Þessa bók eiga margir eftir að lesa það er næsta víst. Eitt finnst mér að Guðni þurfi að útskyra mikið betur. Hvers vegna var Halldóri það svo mikið kappsmál að kippa honum með sér út úr pólitíkinni? Meðan Guðni eða Haldór koma ekki með viðunandi skýringu, hljóta lesendur að hafa leyfi til að geta í eyðurnar.
Ástæðan blasir reyndar við. Kannske skilur Guðni hana ekki sjálfur en ekki er hún flókin. Hún er einfaldlega sú að Allan tíman sem þeir störfuðu saman sem formaður og varaformaður, stóð Halldór á tánum á Guðna, tilbúinn að snúa ef Guðna dytti í hug að reyna að þvælast fyrir þeim hópi flokksmanna framsóknarflokksins, Finni, Ólafi Ólafssyni og fleirum sem í óðaönn voru að sölsa undir sig eignir ríkisins fyrir lítið sem ekki neitt skíthræddur um að Guðna yrði eingverntíman hált á tungunni og kjaftaði frá eða hreinlega stöðvaði þennan ósóma.
Allir sem hafa fylgst með pólitíkinni undanfarin 15 ár, vita að Guðni hefur ekki verið sérlegur talsmaður einkavæðingar. Af hræðslu við að Guðni þvældist fyrir, fannst sjálftökuhópnum ótækt að hann yrði jafnvel í forsvari fyrir kommúnunni. Þess vegna var Halldóri svo mikið í mun að kippa Guðna með sér.
29.11.2007 | 16:56
Staðfest fullyrðing.
Núna rétt í þessu fékk ég staðfestingu á þeirri fullyrðingu minni, hver vaxtamunurinn í landinu væri. Ég býst við að þetta sé meðaltalstala allra viðskiptavina allra lánastofnana landsins.
Í töflu frá Seðlabankanum sem ég fann sem tilvísun hjá Halli Magnússyni, kemur fram að meðaltals vaxtamunur áranna frá 1990-2004 sé 8,6%. Minnstur 1990 6,9% mestur 2002 10,6%.
Ekki kemur fram í þessari töflu að verðbætur séu teknar með í útreikningunum en þeim má að sjálfsögðu ekki gleyma. Það að sleppa því að taka okurvextina með í útreikninginn, gerir niðurstöðuna alveg ómarktæka.
Allar greiðslur af lánum, hvort sem það heita vextir eða verðbætur eru útgjöld skuldara og bara blekking að taka þær ekki með.
Niðurstaða mín er því óbreytt. Vaxtamunurinn er 8-10%.
Vaxtamunur venjulegs heimilis er þó miklum mun hærri eða nær 16% þegar allt er talið.
28.11.2007 | 18:42
Frétt á íslensku.
Ég mælist eindregið til að þessi frétt verði fjarlægð eða allavega lagfærð málfarslega þannig að hægt verði að lesa hana svo hún skiljist.
Fékk þessi höfundur verðlaun árlega?
Hafði fólkið sem styttan er af, mök á 6. áratugnum?
Versta kynlífslýsingin í bók Mailers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.11.2007 | 23:46
Í heimahögunum.
Þar sem ég nú sit og velti fyrir mér framtíð Vatnjökulsþjóðgarðs nýbúinn að lesa Héraðsfréttablaðið Eystra Horn, vaknar með mér sú spurning hvort ekki sé gerlegt að nota eitthvað af þessum miklu byggingum í og við Nesjaskóla í tengslum við þjóðgarðinn.
Í góðri grein sinni bendir bæjarstjórinn á útsýnið til jökulsins frá Stekkakeldu og á þar þá líklega við Öræfajökul. Það er auðvitað gott og gilt að horfast í augu við það sem maður tekst á við og gott ef ekki sést glitta í þann hvíta frá Sunnuhvoli. Þar standa miklar byggingar nú þegar og fyrst ekki virðist vera vilji til að hafa þessa starfsemi inni í bæjarkjarnanum finnst mér að minnsta kosti skoðandi hvort ekki megi nýta þær byggingar sem þegar standa.
Ritstjóri Eystra Horns skrifar hörku leiðara í þetta sinn. Skammar samsveitunga sína fyrir slúður um náungan. Þetta er bæði gömul staðreynd og ný. Á þessu þreifst almúginn öldum saman. Það þarf enginn að segja mér að ólifnaður sýslumanna, hreppstjóra, presta og stórbænda, fyrr á tíð hafi ekki verið umræðuefni manna á meðal. Í dag lesum við um sama efni í dagblöðum, vikublöðum og mánaðarritum sem allsstaðar liggja frammi hvar sem komið er og eru full af þessháttar efni. Í ekki stærra samfélagi en okkar þar sem allir þekkja alla, þrífst líka betur hin illa tunga um náungan sem lagði fyrir framan hjá viðhaldinu (í gamla daga voru þetta hestasteinar) eða hvað það nú er sem ritstjórinn er að ýja að, mikið betur en í stærri samfélögum þar sem gróurnar muna ekki alveg öll bílnúmer. Á þesu lifa kjaftasögurnar og hvað er betra undir tungu en "nágranninn" sá argaþrjótur. Kannske er umræðuefnið oft á tíðum lágkúrulegt eins og gengur og gerist með kjaftasögur en þeir sem kjamsað er á hafa ef til vill, sumir hverjir til einhvers unnið. Fróðleiks og fréttaþyrstum almúga er vorkunn og lái mér hver sem vill þó ég ljái kjaftasögum eyra af og til. Verst að ég man þær ekki stundinni lengur nema þær séu um framsóknarmenn.
22.11.2007 | 22:31
Gleðifrétt.
Ég sé að á mbl.is er ákaflega gleðileg frétt.
Einn af allra fremstu söngfuglum seinni ára er að snúa í sviðsljósið eftir mörg, mögur og örugglega erfið ár.
Whitney Houston er komin í hljóðver. Ég hlakka mikið til að heyra í þessum snillingi á ný.