Leikur Kalla Tomm

Ég hugsa mér konu, látin, erlend.

Kaupmáttur.

Þetta er dálítið skondið orð. Kaupmáttur, kaupmáttleysi, kaupmáttarþreyta, kaupmáttarýmislegt. Væri kannske ekki úr vegi að semja bara um fastan kaupmátt í næstu kjarasamningum. Fast kaupmáttarstig. Held það mundi leysa algerlega allan vanda í þjóðfélaginu. Rífandi kaupmáttaraukning hefur verið á íslenskun heimilum undanfarin misseri. Svo mikil að nauðsynlegt þykir að taka upp evru til að sporna við þessu rótleysi kaupmáttar.´

Alvara málsins er hins vegar sú að um leið og greiningardeild Kaupþings banka skýrir frá rýfandi kaupmáttaraukningu, koma fréttir úr annarri átt sem upplýsa okkur um að skuldir heimilanna hafi margfaldast á undraskömmum tíma. Í því liggur nú öll kaupmáttaraukninin. Það er í auðfengnu lánsfé eða yfirdrætti hjá íslensku lánastofnununum. Ekki eru launin að hækka eða vöruverð að lækka. Verð á eldsneyti hækkar og og hækkar, Vextir hækka og hækka. Allt hækkar þó sumt hækki rólega eins og t.d. afurðaverð til bænda. Ég get ekki með nokkru móti fundið þessa kaupmáttaraukningu. Hvergi nokkursstaðar í mínu lífi enda ekki með yfirdrátt. Kannske verður maður að fá sér einn eða tvo slíka til að auka kaupmáttinn.

Hvern er verið að blekkja í svona talnaleikjum? Halda þessir talnahagfræðingar að fólk almennt, trúi þessari þvælu?

Vaxtamunur. Þar er ein talnaleikfimin stunduð. Ég gorta af því við félaga mína að ég hafi komið Hannesi Hólmsteini úr 1,9% í 4% í vaxtamun. Geri aðrir betur. Mér skilst að hræðsluáróðursmeistarinn Þorvaldur Gylfason hafi fært sig úr 13,5% niður fyrir 10%. Halda þessir menn að einhver hlusti á þetta bull.

Vaxtamunurinn er mjög mismunandi. Það verður hver einstaklingur, hvert fyrirtæki að reikna fyrir sig. Sumir hafa lágan vaxtamun, jafnvel ofurlítið jákvæðan ef þeir skulda engum neitt. Aðrir hafa háan vaxtamun t.d. þeir sem eru með yfirdrátt á launareikningi og eru alltaf í mínus, eru að auki með verðtryggt lán með 5-10% vöxtum auk okurvaxtanna sem felast í verðtryggingunni. Það er nefnilega póstur sem ég held að menn reikni ekki með þegar vaxtamunur er reiknaður. Verðtrygging er okurvextir á lán sem tekið er af einstaklingum til lengri tíma en 5 ára. Sjálfsagt hafa einhverjir stórir viðskiptavinir betri lánakjör en það er alls ekki hægt að reikna þá með ef tekin er heildartala. Þeir eru ekki með heimilisrekstrarlán á yfirdráttarvöxtum uppá 22% um það bil.

Meira síðar.


Kynferðisafbrot.

Í þessum töluðum orðum, er umræða í kastljósi (endurtekið) um refsiramma kynferðisafbrotamanna. Ég gef mér að um sé að ræða fyrst og fremst, þá sem brjóta á börnum.

Ég sem faðir átta barna, hlýt að fagna því að reynt sé að finna einhverja vörn fyrir börnin sem skynja ekki öfuguggahugsanahátt fársjúkra. Bíddu aðeins þvílíkt fallegur söngur hjá Fífilbrekkukórnum.

Já, ég var að fjalla um kynferðisafbrotamenn. Er í raun og veru einhver von til þess að hægt sé að lækna menn af þess háttar hugsanahætti?

Ég sem faðir, tek fram að mér vitanlega, hafa mín börn ekki lent í þeim slæmu örlögum að hafa verið misnotuð kynferðislega.

Alveg sama hvernig allskyns sálfræðingar, afbrotafræðingar, fræðingar og fræðingar reyna að fletta þessari hræðilegu staðreynd. Ekki eitt einasta foreldri, mun geta byggt vírusvörn gegn öfuguggahætti sem barnaníðingar eru sýktir af.

Foreldrar. Ef grunur leikur á misnotkun, leitið aðstoðar eins og skot.

Bara grunur getur nagað þig í svo marga hluta, að þú getur ekki sinnt þinni uppeldisskyldu.

 


Fréttir RUV. kl.22:00

Þar kemur fram að Svandís Svavars hafi ákveðið að draga til baka umtöluðustu kæru ársins til þessa. Af hverju lætur borgarfulltrúinn ekki reyna á réttmæti kærunnar? Svarið blasir við þeim sem svo vilja við hafa. Einn fulltrúa meirihlutans er farinn að snúa uppá hendur hinna meirihlutafulltrúanna og hóta stjórnarslitum ef hróflað verði við auðjöfrum þeim sem réttilega hefur, fyrr verið getið í tengslum við þetta mál alltsaman, eða sem líklega er nær sanni, auðjöfrarnir eru farnir að snúa upp á bakið á borgarfulltrúanum sem meirihlutinn hangir á. Mikið er annars gaman að spá og spégúlera í svona samsæriskenningum. Þetta er nú reyndar allt upp úr mér í þetta sinn en hljómar trúlega. "Ekki satt".

Staðsetning gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ég var upplýstur um það í gær að staðsetning gestastofu yrði á svokallaðri Stekkakeldu sem er rétt innan við byggðina á Höfn. Ég veit ekki nákvæma staðsetningu en er ofurlítið hugsi yfir því hvort þarna sé ekki viðkvæm náttúra sem vert sé að láta í friði. Mér sýnist svosem eins og eitt sæmilega stórt hús rúmast ágætlega inni í bænum. Ef ég skil rétt, á þetta að vera vinnustaður og ég skil ekki alveg hugsunina bak við það að tylla þessu vel utan við bæinn svo enginn starfsmaður geti gengið í vinnuna og varla hjólað, miðað við hvað fáir hér nota reiðhjólið í og úr vinnu við núverandi aðstæður. Þessi ákvörðun samræmist enganveginn hugsuninni um þjóðgarða, náttúruvernd eða umhverfisvernd yfirleitt. Þessa ákvörðun hlýtur að þurfa að endurskoða rækilega. Að mínum dómi á gestastofa hvergi betur heima en innan gamla þjóðgarðsins sem við öll þekkjum, í eða við Skaftafell.

Lífsgæði.

Nú ætla ég að demba mér í heita pottinn (fiskeldiskerið) og njóta þess að í túnfætinum vellur heita vatnið upp. Eitt rauðvínsglas áður, einn bjór í nestið og eitt rauðvínsglas á eftir. Svo ætla ég að demba mér í nýja sófann framan við imbann og horfa á nýkrýndann sjónvarpsmann eða hvaða helv. verðlaun hann hlaut þarna áðan. Nennti ekki að horfa á þetta dæmalausa rugl. Að vísu er þetta endurtekið efni en hver getur hangið yfir sjónvarpi í hádeginu.

Gult eða rautt á skjánum.

Ég er að reyna að horfa á einhverja ameríska bíómynd með öðru auganu. Ég sé að sjónvarpsmerkið er gult sem þýðir að myndin er ekki ætluð mjög ungum. Þó er ég búinn að sjá, allavega tvö morð og eina alvarlega líkamsárás. Mér er með öllu óskiljanlegt hvernig uppeldi þeir dómarar hlutu sem meta áhorfshæfi bíómynda sem sýndar eru í ríkissjónvarpinu. Þeim finnst allt í lagi að allt niður í 12 ára krakkar horfi á morð, rán og misþyrmingar. En ef sést í konubrjóst, ég tala nú ekki um ef sést í bæði á sömu konunni, er umsvifalaust komið eldrautt merki á skjáinn. Ég segi bara enn og aftur, hverskonar uppeldi hlaut þetta fólk sem tekur sér það vald að meta sjónvarpsefni oní landann? Hvort haldið þið lesendur góðir, að hæfi ykkur betur að læra að drepa nógu marga á nógu stuttum tíma, eða að fá að horfa á falleg ástaratlot, jafnvel samfarir, (ef hugarflugið fær að njóta sín) í sjónvarpi alra landsmanna. Hvort finnst ykkur lesendur góðir, skemmtilegra að horfa á og vita af unglingum horfa á, morð, líkamsmeiðingar, rán, nauðganir eða annarskonar misþyrmingar. Eða fallega, sakleysislega ástarsenu í sjónvarpinu?

Ég bara spyr?


Verðlag:

Þegar ég heyrði í dag, verðsamráðsumræðuna á Rás 2, kom upp í hugann, fyrirsagnir á Moggablogginu. Kannske eru neytendur lamaðir eftir að hafa fengið þessar sorgarfréttir. Átrúnaðargoðin stunda svindl og svínarí.

Allavega mjög hljótt um verðlagsmál á blogginu.

Þeir viðmælendur sem þetta er haft eftir eru bæði fyrrverandi og núverandi starfsmenn Bónuss og Krónunnar. Það hefur örugglega verið mikið streymi starfsfólks hjá þessum verslunum og eins og gengur, hugsanlega eitthvað gengið á þegar starfslok hafa verið ákveðin hvorum megin sem sú ákvörðun hefur verið tekin. Hitt er annað mál að starfsfólk RUV hefur væntanlega kannað vandlega bakgrunn hvers viðmælanda, allavega þeirra sem haft er eftir í fréttum og auðvitað útsendum viðtölum.

Ég hjó eftir því að hjá Bónus er lögð áhersla á að hanna hillur með rafrænum verðmerkingum þar sem, með einum takka á tölvu er hægt að breyta samtímis hilluverði og verði í kassa. Sjálfsagt er mikil hagræðing í því að þurfa ekki að segja kassafólki allar 300-3000 verðbreytingar sem gerðar eru daglega, heldur kemur það sjálfkrafa í kassann. Þetta vekur samt upp tortryggni gagnvart því þegar eftirlit með verðlagi fer fram með vitund verðlagsstjórans í versluninni. Hann veit um verðkönnun sem er í gangi og með þessari tækni er hægt um vik að notfæra sér hana.

 


Umtalaðasta bók mánaðarins.

Áðan var til umræðu í Silfri Egils, þessi umtalaðasta bók mánaðarins þar sem margir fá hreistur á sporðinn yfir litarhætti söguhetjanna. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er sammála henni Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Þessi saga er alveg fullboðleg á hvaða tíma sem er. Það er mjög þröng túlkun að allar söguhetjurnar hafi forlórast þó þeir hafi misst af lestinni. Ef við fengjum hagspekingana sem eru titlaðir prófessorar hjá Háskóla Íslands og hafa eytt sínum síðustu kröftum í að finna það út að annað hvort er vaxtamunur á Íslandi 13,5% eða 1,9% og létum þá leggja hagspekilegt mat á afdrif þessara söguhetja, gætum við búist við að þeir finni einhverja þeirra í opinberum stöðum hér og þar um heiminn. Þar sem alllangt er síðan þessir atburðir gerðust, gætu þeir hæglega komist að því að einn þessara kumpána væri forfaðir einhvers krullukolls í áhrifastöðu hérlendis. Svona geta nú tengslanetin legið.

Annars vorum við Halanegrar alltaf frekar viðkvæmir fyrir þessum ósmekklegheitum. Við fengum ósjaldan augnagotur þegar við vorum látin syngja þetta við hin ýmsu tækifæri. Svo langt gekk þetta fram, að einn okkar er alveg vitalaglaus eftir.


Hvað er vaxtamunur? Prófessorstiktúrur:

Ég horfði á Silfur Egils á sunnudaginn og heyrði ekki betur en prófessor Þorvaldur Gylfason talaði um 13,5% vaxtamun á inn og útlánsvöxtum. Ég geri ráð fyrir því að Þorvaldur eigi við að lánastofnanir taki til sín 13,5% meira en þær láti frá sér.

Þó ég reyni að forðast að opna blogg sem ég veit að ekki er hægt að kommentera á, las ég prófessor Hannes Hólmstein Gissurarson í kvöld. Hann segir að vaxtamunur hér sé 1,9%. Enn geri ég ráð fyrir að lánastofnanir taki þá 1,9% til sín.

Það er aldeilis furðulegt að þarna skuli vera á ferð, prófessorar sem vinna við sömu stofnun, rekna af sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. 13,5% vaxtamununur, á hvorn veginn sem er, er gríðarlega mikið en 1,9% á hvorn veginn sem er er að sama skapi gríðarlega lítið. Hvernig þessir menn fá sig til að opinbera þessar tölur fyrir alþjóð og rengja hvorn annan án þess þó að geta á nokkurn hátt útilokað reikningskúnstir hvors annars, er alveg með ólíkindum. Það að þjóðin skuli þurfa að halda þessum stærðfræðiséníum uppi er náttúrlega alveg út úr korti því að þessir vinnufélagar eiga auðvitað að taka að sér verðugri verkefni fyrir einhverja sem hugsanlega gleyptu niðurstöðurnar möglunarlaust.

Það að 13,5% vaxtamunur lánastofnunum í vil sé staðreynd nær engri átt. Þó markaður hér sé lítill, er alveg útilokað að erlendir bankar létu þann gulrófnagarð óáreittan. Þess vegna tel ég að prófessor Þorvaldur sé eitthvað yfir þverslánni með sína sendingu. Á hinn bóginn er 1,9% lánastofnunum í vil jafn fáránleg della því í sama mund og prófessor Hannes spyrnir þessari tölu alldjúpt oní völlinn vel framan við vítapunktinn, lokar hann augunum fyrir því að verðtrygging lána er ekkert annað en vextir og það meira að segja okurvextir.

Mín niðurstaða er sú að prófessor Þorvaldur sé að reka hálfgerðan lygahræðsluáróður fyrir upptöku evru en prófessor Hannes sé að halda uppteknum hætti og rengja sem mest af því sem vinnufélagar hans halda fram með einum eða öðrum hætti.

Mitt mat á vaxtamun hérlendis er, að venjulegur viðskiptavinur banka eða sparisjóðs hér á landi sé að legja sinni lánastofnun til um 9-10% í vaxtamun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband