Yfirlýsing utanríkisráðherra.

Hvað er Ingibjörg utanríkisráðherra að upplýsa okkur um?

Með því að opna umræðu um leit í flugvélum sem brúkaðar eru til fangaflugs, er utanríkisráðherra að staðfesta þann grun minn að þessi för hafi hingað til fengið að koma og fara óáreitt um íslenska flugvelli. ég er verulega sleginn yfir þessari staðfestingu. Ég hef haldið í þá veiku von að mér skjátlaðist en því miður kemur á daginn að þarna erum við Íslendingar gersamlega að bregðast. Hvað veldur því að þessar flugvélar fá að lenda hér og fara aftur án afskipta til þess bærra eftirlitsaðila? Þar ráða líklega mjög annarleg sjónarmið vildarvina morðóðs pótintáta vestur í Ameríku. Manns sem hefur fleiri mannslíf á samviskunni en velflestir á sögulegum tíma. Verst er að mjög líklega hófust þessir manréttindabrotsfangaflutningar áður en hann reykti sína fyrstu jónu. Svo þá spyr maður. Hvaða yfirmaður tollyfirvalda á Íslandi tók þá ákvörðun að loka hinu sjáandi auga þegar þessir fólksflutningar hófust og setja það svo í sína pólitísku erfðaskrá að undir engum kringumstæðum mætti hrófla við þessu ákvæði?

Svo sannarlega vona ég að Ingibjörgu verði eitthvað ágengt í því sjálsagða máli að leitað sé á hefðbundinn hátt í ölum förum sem til landsins koma, bæði á sjó og landi og þá bæði að ólöglegum farmi og ólöglegum fólksflutningum.


Frelsi til ásta:

Helvíti fer nú að verða gaman að lifa hugsaði ég með mér þegar ég sá allar hendur á lofti á kirkjuþingi eða einhverri prestaráðstefnu sem stendur yfir um þessar mundir. Nú eru enn fleiri jafnir fyrir guðs erindrekum en í gær því nú mega prestar blessa allan sinn söfnuð hvort sem hann er þannegin eða hinsegin. Ég velti fyrir mér hvort ég fengi blessun ef ég mætti til altaris með lesbíu eða homma mér við hlið. Það gleymdist nefnilega alveg að geta þess, hvort gagnsamkynhneigð eða samgagnkynhneigð væri þóknanleg. Getur verið að orðið tvíkynhneigð nái yfir mína óra? Ég bara spyr. Ég er frekar illa að mér um kynhneigð vegna þess að ég er úr sveit og þar hjakka t.d. beljur á beljum þegar þær eru yxna, gleðjast samt óstjórnlega þegar þær sjá naut. (Ekki töskutudda). Sama er að segja með nautin. Þau eru höfð saman í stíu og gera sko dodo alveg eins og ekkert sé. Úff einn metri þar. Horfandi á hryssur í haga. Þær berjast eins og smástrákar í Cowboyleik þegar þær eru í látum. þetta er náttúran í sinni heilbrigðustu mynd, ekki einhver óaðgengileg helgislepja um að allir skuli ?????? Ég bind miklar vonir við að, ef ég mæti með lesbíu eða homma. þó ég sé hvorugt, eða jafnvel bæði í einu, að ég fái hlotið blessun einhvers hempu eða skikkjuklædds til þess kjörins.


Forsætisráðherra í Kastljósi.

Forsætisrðherrann mætti í drottningaviðtal í kvöld. Afskaplega hafði maðurinn lítið til málanna að leggja. Sá skilningur sem ég lagði í þau örfáu orð sem hann þó sagði var að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins gæti ekki komið upp um brall Björns Inga varðandi málefni Orkuveitunnar því að um leið kæmu þeir upp um sitt eigið brall. Nýr meirihluti á mikið verk fyrir höndum að reyna að snúa ofan af þessu einkavinahappdrætti sem fyrri meirihluti stofnaði til þar sem svo virðist sem aðeins örfáir miðar hafi verið gefnir út en allir merktir kyrfilega.

Ekki er annað hægt en vorkenna nýjum meirihluta í Reykjavík, að dragast með þennan 6,5% mann, að þurfa að taka við af Sjálfstæðismönnum og sæta hvers kyns afarkostum til að halda frið og völdum í Borginni.


Hungurlús.

Í kvöldfréttatíma RUV var viðtal við einn verkalýðsforkólf sem ég heyrði ekki nafnið á vegna hávaðans í dráttarvélinni. Hann talaði um að 150 þúsund krónu. lágmarkslaun yrði tillaga ASÍ.

EITTHUNDRAÐOGFIMMTÍUÞÚSUND krónur og þar af fer hvað mikið í opinber gjöld? Hagstofan segir fátækramörk um 130. þúsund. Skelfilegur metnaður er hjá ASÍ. Ég mundi halda að krafa um 190 þúsund krónu lágmarkslaun væri þokkalega sanngjörn.

Sanngjörn krafa lágmarksauna gæti verið, skattleysismörk x 2.


Næturbrölt.

Var að horfa á sjónvarpið (endurtekið kastljós, með samræmdu hljóði og mynd) með seinna auganu meðfram grúski. Ég tek eftir því að afkynning í kastljósi hefst ekki fyrr en eftir að tónlistaratriði lýkur. Kannske er þetta löngu liðin tíð en ég minnist þess að fyrir nokkrum vikum sá ég að Pálmi Gunnars var að skammast yfir því að texti rynni yfir skjáinn um leið og tónlistaratriði. Nú virðist orðin breyting á og er það gott.

Hljóð og mynd.

Hver andskotinn er eiginlega að gerast? Maður settist spenntur framan við imbann og ætlaði að njóta Matthíasar með Agli. Hvað veldur? Þetta er alger eyðilegging á annars mjög frambærilegum sjónvarpsþætti, hljóðið fylgir ekki mynd. Er þetta bara svona á Hala? Það væri svosem eftir öðru hvað varðar útsendingar ríkisfjölmiðlanna. Hér heyrist illa í útvarpi og sjónvarp er flöktandi og hangir á bláþræði eins og líf spörfugls um hávetur í grenjandi stórhríð.

Vetrarboðinn.

Í kvöld mætti ég á fyrstu æfingu hjá karlakórnum Jökli. Vetrarstarfið er sumsé hafið. Það er mikil andans upplyfting að rífa eyrað frá fréttatímum eða augun af síðum Mogga. Varla þó þorandi því þá gæti maður misst af einhverju mergjuðu af höfuðborgarslúðrinu. Helvíti er hressandi að bryna raustina í samhljómi við hóp manna. Þetta ættu þingmenn að prófa þ.e. þetta sem kallað er að stilla saman strengi (sem í þessu tilviki eru raddböndin) og belja af öllum lífs og sálar kröftum allir í kór. Sá kór yrði að vísu blandaður (samkór) en það getur verið mjög gaman ef allir syngja sama lagið og lúta einum stjórnanda. ímyndið ykkur Sturlu stuðbolta munda tónsprotann. Þeir kallar hafa lofað mér myndarlegum forkaupsrétti ef kórinn yrði einkavæddur og settur á markað. Að þessu leyti leggst veturinn vel í mig.

Græningjar

Ég veit bara ekki hver boðaði þennan fund, ég bara mætti.

Skyldi Óskar Begsson hafa sent sms til borgarfulltrúa sjalla og boðað þá á fund með Geir. Þökk sé Agli Helgasyni að draga þessa vitleysinga í RUV


Njála.

Í gær og í dag var haldið málþing um rithöfundinn Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm í Þórbergssetri. Torfhildur var dóttir séra Þorsteins Einarssonar prests á Kálfafellsstað í Suðursveit sem þjónaði þar á seinni hluta 19. aldar. Torfhildur var fyrst kvenrithöfunda að gera skriftir bóka og útgáfu að atvinnu sinni. Margir skemmtilegir fyrirlestrar voru þarna fluttir og fjörugar fyrirspurnir og umræður spunnust á milli.

Á málþinginu var upplýst um það að nýr höfundur Njálu væri fundinn. Ekki var getið nafns en að þarna væri um konu að ræða.

Mikið er gott að hreinsa höfuðið og andann af þeirri pólitísku óværu sem riðið hefur öllum fjölmiðlum undanfagra sólarhringa og hlusta á marga helstu postula menningarelítunnar tjá hug sinn um ritverk og persónuna Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm.


Húðsjúkdómur.

Af hverju fæ ég alltaf grænar bólur þegar ég sé mynd eða heyri minnst á einn ákveðinn mann? Ekki það að nafnið sé svo ljótt eða fráhrindandi. Það er bara þetta nafn "Finnur".

Annars fékk ég samskonar útbrot þegar ég sá Don Alfredo veita Bing Júdasarkossinn og fá sér sopa af krókódílatárum.

Upptalning fréttamanns RUV á eignarhaldi framsókarmafíunnar kringum samruna ársins lagði mig gjörsamlega flatann svo nú verður að bera mig á kvöldvöku í Þórbergssetri þar sem er verið að málþinga um hina merku skáldkonu Torfhildi Hólm.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband