16.12.2008 | 07:25
Eftir á að hyggja.
Þar fauk trúverðugleiki Jóns Gerald Sullenberger. Hann sagði fullum fetum í Silfri Egils að Lúðvík hefði verið þarna á flækingi í boði Jóns Ásgeirs. Allavega skildi ég hans orð þannig og ég man ekki betur en Egill hafi spurt hann sérstaklega út í það nenni samt ekki að leita það uppi núna.
Stutt en söguleg sjóferð Lúðvíks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2008 | 21:04
Sagan öll.
Nú styttist í að hausar fjúki. Ég spái því að ríkisstjórninni endist ekki aldur til að skilja við. Sérkennilegt að hugsa til þess að hægt sé að drepast án þess að taka síðasta andvarpið. Svona virkar hópeflið stundum. Skemmtilegast við þennan dauðdaga verður að enginn sorg eða söknuður mun ríkja á byggðu bóli þessa lands. Þeir einu sem munu bera sorg í hjarta verða jólasveinarnir 12 í ríkisstjórninni og sá 13. í Seðlabankanum. Leiðinlegt að þurfa að upplýsa lítil börnin um það svona rétt fyrir jólin að það séu til raunverulegir jólasveinar, ekki með hvítt og sítt skegg heldur nauðrakaðir, sumum sprettur varla heldur grön en hafa í staðinn kolsvarta sál. Blessuð börnin sem trúðu því að eitthvað væri satt af öllu blaðrinu um góðærið og velsældina. Vandasmt verður fyrir okkur foreldra að útskýra afleiðingar lyganna og prettanna sem viðhöfð hafa verið. Glansmyndir á biðstofunum, falskt brosið á gamblernum, öll umræðan þessa dagana. Pabbi af hverju er alltaf verið að tala um hrun? Af hverju er alltaf verið að tala um sökudólga? Af hverju er alltaf verið að tala við sömu mennina í fréttatímunum? Einu skýringarnar sem ég get gefið er að þetta séu hinir nýju jólasveinar. Þeir léku útrásarvíkingana manstu, á sama tíma og spaugstofan var að gera grín að víkingasveitinni hans Bjössa bangsjólasveins en nú er verið að láta þá leika alvörujólasveina. Þess vegna segja þeir aldrei neitt af viti þannig hafa jólasveinar alltaf leikið, þykjast ekki mega segja hvar þeir eiga heima, þykjast ekki mega segja hvaðan þeir koma, þykjast ekki mega kjafta frá leyndarmálinu um allt milli himins og jarðar, það gæti skaðað hópinn og einhver gerður höfðinu styttri fyrir lausmælgi.
Það er sannarlega vandlifað með lyginni og prettunum.
15.12.2008 | 04:38
Og enn gefurún:
Sagði presturinn á hnjánum við dánarbeð ríku ekkjunnar.
Svipaða sögu er að segja af þessari, þeirri alvesölustu ríkisstjórn sem setið hefur hér síðan þjóðin fékk sjálfstæði. Hvað er nú uppi á teningnum? Talan 7 náttúrlega. Einhver tala sem alls ekki er til á sexhyrningi. Það var svo sem auðvitað að þessir lúsablesar veldu eitthvað sem alls ekki er til í raunveruleikanum. Það er að framkvæma að kröfu þjóðarinnar, koma sér burt úr stjórnarráðinu, gefa þjóðinni það í jólagjöf að kosið verði um miðjan febrúar.
Það þarf engan framboðsfrest. Jólafrí þingsins dugir til að skipa á lista. Það þarf enga framboðsfundi. Þeir hafa allir farið fram og hefðu mátt vera miklu færri og styttri.
Framboðsfundir þeirra stjórnarþingmannanna Lúðvíks og Illuga í ríkissjónvarpinu keyrðu algerlega um þverbak. Báðir þessir "rauðhausar" lentu í því að verða valdir að einhverri mestu hneisu sem þjóðin hefur upplifað. Hneisu sem 3 núverandi stjórnmálaflokkar hafa orðið valdir að. Já atbeini framsóknarflokksins er alls ekki gleymdur og mun sennilega aldrei gleymast vegna þess að sögulegar heimildir í nútímanum glatast ekki. Eygló Harðardóttir fyrrum Hlíðardalsmær frá Vestmannaeyjum mærir framsóknarflokkinn í grein í Fréttablaðinu um helgina. Þar mælist hún eindregið til að misgjörðir flokksins verði grafnar og gleymdar um aldur og ævi. Samvinnusjóðurinn, rausnarleg gjöf þjóðarinnar þar sem Búnaðarbankinn var færður flokksfélögum í gylltum umbúðum í skiptum fyrir Landsbankann til íhaldsins og ýmsir aðrir bitlingar sem þessi þokkahópur tók sér meðan hann hafði aðstöðu til.
Rauðhausarnir Lúðvík löglærði og Illugi hagspekingur "lentu" ábyggilega alveg óvart í því að bæði elta svindlarana í aðrar heimsálfur og loka sjáandi auganu fyrir bölinu sem var að dynja yfir þjóðina frá ársbyrjun 2008 og jafnvel lengur, líklega frá þeim tíma sem Þingvallastjórnin var mynduð. Það er mikið gefandi fyrir alla þessa löglærðu og hagvönu í þinginu. Þeir geta hvorki sett lög sem halda vatni né vindi, né séð dag fram í tímann hvað hagfræði varðar.
Niðurstaðan hlýtur því að verða sú að þessir háleistar hundskist út úr þinghúsinu og út úr stjórnarráðinu. Nú er ekki tími til að bæta silkihúfum oná hausinn á hauslausum her. Veljum okkur nýja forystu. FRAM TIL ATLÖGU. KJÓSUM OKKUR NÝJA FORYSTU UM MIÐJAN FEBRÚAR.
14.12.2008 | 22:21
Lengi getur vont versnað:
Fyrir nokkrum dögum var stjórnarþingmaður í kastljósþætti. Honum varð á að tönnlast svolítið á að við Íslendingar hefðum "lent" í bankahruninu og kreppu í kjölfarið. Þessi náungi, Lúðvík Bergvinsson er útskrifaður úr einhverri lögfræðideildinni, sennilega Háskóla Íslands þó ég viti það ekki fyrir víst.
Í Silfur Egils í dag, kom annar stjórnarþingmaður Illugi Gunnarsson og lenti hann í sama fúafeninu og hinn fyrri. Honum varð á að segja frammi fyrir alþjóð að við hefðum "lent" í þessu. Ekkert hafði Egill við það að athuga öfugt við stjórnanda kastljóssins sem ítrekað hnykkti á þessu orði við Lúðvík. Það ömurlegasta við þetta er að báðir þessir þingmenn eru gegnsýrðir af hupplegheitunum við svindlarana sem hruninu ollu og verða að gjöra svo vel og kyngja því að þeir báðir verða rassskelltir með svindlurunum. Það verður þeirra hlutskipti.
Það kemur sífellt betur upp á yfirborðið hvað pólitíkusarnir eiga stóra sök á hruninu. Þeir ætla hins vegar enga ábyrgð að taka frekar en fyrri daginn. Þetta er skríll sem ekki kann hina minnstu mannasiði og á ekkert betra skilið en dúndurrassskell og ærlegan hýrudrátt. Þeim sakamönnum sem hugsanlega lesa þetta skal bent á að hýrudráttur er launaskerðing, launamissir.
Nú er komið mál til að við vinnuveitendur þessara svindlara og yfirhylmara í þinginu, tökum til okkar ráða. Við segjum þessu slekti upp störfum og tökum þá nú þegar af launaskrá. Þetta framferði nær ekki nokkurri átt. Út með ykkur þið yfirsvindlarar og málþófsfólk. Við höfum fengið nóg af ykkur og ykkar vinnubrögðum eða aðgerðarleysi eftir atvikum. Þið hafið nóg illt af ykkur gert.
BURT með ykkur PAKK.
12.12.2008 | 13:38
Samningar og samstarf þjóða.
Það gleður mig mikið að sjá í DV. í gær að formaður Frjálslynda flokksins Guðjón Arnar Kristjánsson tekur undir með mér að löndin sem eiga hagsmuna að gæta hér á norðurslóðum, taki um samningaviðræður um sína sameiginlegu hagsmuni.
Ég hef dálítið hamrað á því að við eigum að taka upp viðræður við Norðmenn, Rússa, Grænlendinga, Kanadamenn, Bandaríkjamenn og etv. fleiri sem hagsmuna eiga að gæta í norðurhöfum. Við eigum að vera sporgöngumenn í þeim viðræðum sem gefur okkur ákveðið forskot. Það er alþekkt að sá sem er upphafsmaður, nýtur ákveðinnar forystu í svona málum. Þess vegna er mikilvægt að eiga frumkvæðið.
Betur færi að fleiri stjórnmálamenn tækju þetta brýna hagsmunamál til skoðunar og umræðu.
8.12.2008 | 15:53
Hver er tilgangurinn?
Það hljóta að verða birt ítarleg viðtöl við þennan skríl sem svona hagar sér gagnvart heilögum þingheimi.
Eða verða bara birt ummæli leppa Dómsmálaráðherrans um þennan skríl sem er búinn að koma óorði á þjóðina.
Hvað þarf að gerast til að þinginu verði ljóst að valdið er hjá þjóðinni en ekki öfugt. Verður endirinn sá að þinginu verður hreinlega hent út úr húsinu?
Ólæti á þingpöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2008 | 13:24
Notalegur súpufundur:
Ég datt inn á fund með alþingismanni okkar í Suðurkjördæmi, Árna Johnsen hér á Höfn. Nauðsynlegt að starfsmenn okkar komi hér öðru hvoru og reyni að upplýsa okkur um hvað er í gangi í Kvosinni. Árna tókst vel upp eins og hans er vandi. Hann slær sig gjarnan til riddara á kostnað samstarfsfólks. Sem dæmi er hann búinn að bagsa við að girða upp um umhverfisráðherrann í rúmt ár en hún er víst með allt niður um sig ennþá svo kannske þykir Árna bara ágætt að hafa hana buxnalausa. Ég mætti víst alveg mátulega til að missa af niðurlægingu annars ráðherra sem er þó samflokksmaður Árna. Það er landbúnaðar og sjávarútvegsráðherrann, sá ráðherra sem við, hér á þessu svæði eigum hvað mest undir. Þar fór Árni með tölur úr fréttaveitu Suðurkjördæmis sem er Grétar Mar Jónsson, annar þingmaður okkar kjördæmis. Í stað þess að staðreyna bullið úr Grétari skirrist Johnsen ekki við að fleipra með upplýsingar en það er nú hans vandi og þess vegna getur hann aldrei orðið trúverðugur. Hann lét það út úr sér að starfsmenn Fiskistofu væru tvöhundruð talsins og stofnunin væri handónýt. Þetta er það sem Grétar Mar hefur tönnlast á síðan hann komst ekki lengur upp með kvótasvindl. Skil ekkert í Árna að tala ekkert um annarskonar réttarfar sem hann hefur kynnst betur af eigin raun. Starfsmannafjöldinn þar er örugglega honum hugleiknari en Fiskistofu. Fiskistofu þekkir Árni ekki hætis hót nema af afspurn og honum og öðrum til fróðleiks er mjög þægilegt að fara inn á vefinn Fiskistofa.is þar er beinlínis hægt að telja alla starfsmenn. Ég reyndi að leiðrétta Árna eftir að fundargestir bentu mér á þetta. Því miður misfór ég líka aðeins með tölur. Ég gleymdi að nú er komið undir Fiskistofu, eftirlit með lax og silungi þannig að í stað 84 eru núna starfandi 88 á Fiskistofu. Biðst ég velvirðingar á þessari missögn. Árni talaði aðeins um ESB umsókn. Hann orðaði möguleikana á umsókn einhvernveginn á þann vag að það væri í lagi að sækja um ef ESB hefði ekkert með umsókn okkar að gera. Við mundum semsagt ganga þarna inn eins og við ættum þetta allt saman skuldlaust og þyrftum ekkert tillit að taka til annarra þjóða. Þar er ég honum reyndar sammála meiningarlega þó kannske mætti orða þetta á penni hátt. Annars er súpan á Kaffi-Horninu alltaf mjög góð.
7.12.2008 | 00:25
Villuljós:
Fréttaflutningur á Íslandi er allur orðinn hinn skrautlegasti. Hver af öðrum keppast fjölmiðlar við að skreyta sig og þá væntanlega "eigendur sína" fjöðrum páfugla. Af hverju rekja þessir fjölmiðlar ekki sína eigin fjármálaóreiðu og eða fjármál stjórnmálaflokkanna þar sem sukkið og svínaríið er verra en þó allir lögfræðingar landsins væru samankomnir á einni og sömu innheimtuskrifstofunni.
Þessi frétt er aldeilis galin og sínir best þá þurrð sem komin er í heilabú fréttamanna. Ég vil benda fréttamönnum á að leita sér upplýsinga um sporslur frá ráðherrum. Þeir fá úthlutað einhverjum milljónum hver til að reyna að tryggja sér einhver atkvæði í komandi kosningum.
Forsetaembættið mótmælir frétt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2008 | 16:05
Lítilátur og ljúfur:
Það er kunnara en fram þurfi að taka, hvað hitakærar örverur eiga sameiginlegt hver með annarri. Það hefur hins vegar ekki verið þekkt fyrr í lífríkinu að hitakærar örverur láti undirsáta sína nota sig til að leika aukahlutverk í grínþáttum sem sendir eru út í fréttatímum og fréttatengdum þáttum um víða veröld. Einhver mesta niðurlæging sem hitakær örvera hefur orðið fyrir, fyrr og síðar er einmitt ráðherra bankamála á Íslandi. Fljótlega eftir að hann tók við embætti viðskiptaráðherra, komu hann og Kristján L Möller, sem er hitakær örvera af svipaðri stærð á fund hér á Hornafirði. Eins og að líkum lætur var viðskiptaráðherrann ekki spurður neinna spurninga enda brunnu engar slíkar á vörum fólks eins og gerir í dag. Samgönguráðherrann var hins vegar, af gefnu tilefni sem er bygging nýs vegar yfir Hornafjarðarfljót, spurður nokkurra spurninga. Strax á þeim tíma sem er fyrir um ári síðan, voru svör hans á líkan veg og svör allra samflokksráðherra hans eru í dag, sama hvað spurt er um. Einfaldlega ekki neitt. Það eina sem blessuð samgönguörveran vissi var að Héðinsfjarðargöng höfðu lengst um 900 metra í meðförum umfjöllunaraðila á þeim tíma. Spurning hvað þau hafa vaxið síðan. Viðskiptaráðherrann hefur verið hafður að engu í darraðadansi fjármálaheimsins síðustu vikna. Það er allri heimsbyggðinni ljóst. Vegna þess hve hallur hann er undir Evrópusambandið, telur hann að sá argi í Seðlabankanum hafi hunsað sig þegar hann ákvað að láta lepp sinn í forsætisráðuneytinu yfirtaka Glitni banka með 80 milljarða hlutafé. Það er mikið umhugsunaratriði fyrir okkur í Suðurkjördæmi hvers við eigum kost með vorinu þegar kosið verður. Slæmir voru nú kostirnir í síðustu kosningum þegar þeir Guðni og Bjarni voru að verja framsóknarósómann og ekki er vitað hverjir munu halda því sjóræningjaflaggi á lofti að þeim gengnum. Hitt er öllu verra að þurfa að horfast í augu við þá aumu staðreynd að meirihluti eftirsitjandi þingmanna kjördæmisins skuli vera þeir nafnar Leppur og Skreppur og Lúlli og viðskiptaráðherrann marghunsaði og lítillækkaði. Ja hérna verði ekki á betra völ með vorinu er nokkuð ljóst að Atli Gíslason lögmaður mun taka með sér að minnsta kosti 2 menn fyrir VG. Það er öllum ljóst í þessu kjördæmi að enginn annar kostur er í stöðunni.
Það er ekkert annað fyrir viðskiptaráðherrann og Evrópuþjónkarann að gera en að segja af sér fyrst hann fær Davíð ekki þokað úr Seðlabankanum. Ella verða engir Samfylkingarþingmenn kjörnir fyri Suðurkjördæmi með vorinu.
Björgvin, ætlarðu að láta þetta spyrjast um þig, að þú látir embættismannsbullu troða þér í eldstóna svona rétt fyri jólaföstuna. Er svona ljúft í hlýjunni af kjötkatlinum?
Svona lýsir sér víst valdasæknin ef vald skyldi kalla þegar embættismenn stjórna yfirmönnum sínum. Þá kemur söngurinn, Seðlabankinn heyrir ekki undir Viðskiptaráðuneytið, sem túlka verður á þann eina veg að þér er andskotann sama um álit kjósenda þinna. Þú vonar bara að þeir séu jafn skamminnugir og kjósendur Íhalds og Framsóknar í kjördæminu.
Björgvin: Spurningarmerki við Glitnisatburðarás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.12.2008 | 01:29
Virðulegi forseti!
Eitthvað á þennan veg hefst yfirleitt ávarp þingmanna úr ræðustóli í þinginu.
Virðing er góðra gjalda verð og finn ég ekkert að því þótt alþingismenn titli sína forseta sem þeir hafa valið sjálfir til að stjórna fundum þingsins. Hitt er aftur anað mál, hvort ekki sé kominn tími til að þingmenn og þar með taldir þeir þingmenn sem valist hafa til að gegna tímabundið embætti ráðherra s.s. forsætis, fjármála, viðskipt, utanríkiasmála o.s.frv. sýni umbjóðendum sínum (atvinnurekendum sínum) þá virðingu, að bugta sig lítillega, titra ofurlítið í hnjákollunum og segja lágum en þó skýrum rómi "virðulegi kjósandi minn" þegar þeir koma fram fyrir alþjóð hvort sem er í sjónvarpi eða útvarpi.
Virðingaleysi ráðherranna er orðið verulegt áhyggjuefni. Ég ætla að tiltaka eitt dæmi sem er þó alls ekki neitt einsdæmi og er heldur alls ekki nýtt af nálinni.
Sett voru lög um gjaldeyrisviðskipti alveg nýverið. Varla var blekið þornað þegar gagnrýnisraddir fóru að berast utan ú þjóðfélaginu. Þar voru á ferðinni hagfræðingar, viðskiptafræðingar, tölvunördar, kerfisfræðingar og alls kyns fólk sem daglega hafa þurft að sinna viðskiptavinum sinna stofnana og fyrirtækja varðandi gjaldeyri á ýmsum stigum. Dómur þess var að þesi nýju lög mundu hefta flæði gjaldeyris inn í landið. Eitthvað allt annað en við þurfum á að halda þessa dagana. Viðbrögð ráðherra viðskipta létu aldeilis ekki á sér standa.
Vesalings fíflin úti í þjóðfélaginu voru rétt eina ferðina enn að misskilja minn göfuga tilgang, (þ.e. að halda hlífiskildi yfir seðlabankastjórninni, stjórn fjármálaeftirlitsins, lögspekingum ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórninni sjálfri og síðast en ekki síst, flokksgæðingum sitjandi og fyrri ríkisstjórnar.
Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að nánast allir sæmilega lesið og lært fólk í stjórnsýslu og fjármálum, skilur þessa fljótaskrift á lagasetningu framkvæmdavaldsins alveg þveröfugt við þá sem semja og setja þessi sömu lög.
Er þessi ráðherrafáráðlingur að reyna að telja fyrrum kjósendum sínum hér í Suðurkjördæmi, trú um að hann og hann einn skilji og viti hvers konar lagasetningar og reglugerðartilbúningur gildi og virki við þessar aðstæður. á sama tíma er samt verið að endurskoða þessi umdeildu lög og reyna að færa þau í nothæft horf svo þau verði ekki bara Sunnlendingum, heldur öllum íbúum þessarar þjóðar til ævarandi skammar og háðungar um víða veröld.
Af hverju segir þetta vesalings mannkerti ekki af sér ráðherradómi, þingmennsku og kjörgengi. Hann er löngu búinn að afsala sér öllum rétti til að gegna nokkru ábyrgðarembætti fyrir sitt kjördæmi og sína þjóð.
Mikið er maður annars lánssamur maður að hafa aldrei orðið sjóveikur um dagana við að draga björg í bú þessarar þjóðar. Hitt er aftur annað mál. Hvers maður á eiginlega að gjalda að þurfa að horfa uppá ásýndir þessara guðsvoluðu fáráðlinga sem skipa þessa eindæma ónýtu ríkisstjórn í hvert einasta sinn sem manni verður á að horfa á útsendingar frétta og fréttatengdra þátta sjónvarpsstöðvanna hér á landi.
Verst er þegar ráðnir verkstjórar ráðuneytanna koma andaktugir og náhvítir í framan og sverja blákalt framan í alþjóð að því miður skilji ekki nokkur Íslendingur, hvað þá útlendingur þeirra göfuga tilgang með nýjasta útspili í lagasetningu eða tilmælum til ráða og nefnda hist og her í stjórnkefirnu.
Kjaradómur misskilur, öll lögfræðiakademían misskilur einfalda skipun herrans um að lækka snöggvast laun hjá stéttum sem áður hafði fallið dómur um að ekki væri hægt að lækka laun hjá.
Hvert einasta mannsbarn misskilur ný lög um gjaldeyrishöft sem stuðla að verulegri hindrun út og innflæðis á gjaldeyri.
Ég spyr enn. Hvað eigum við lengi að þola það að fólk sem tímabundið er ráðið í vinnu hjá okkur, standi sig ekki betur en þetta. Hafandi aðgang að öllum helstu sérfræðingum sem völ er á um víða veröld, skúbbi svona dag eftir dag og reyni svo að gera lítið úr þeim sem augljóslega hafa meira vit á atburðarásinni en viðkomandi ráðherrar og þeirra vælandi Evrópusambandsvælandi leiguþý.
Nú segi ég nóg komið.
Hér með, Björgvin G Sigurðsson viðskiptaráðherra. Ath: ráðning til 4. ára er þér sagt upp störfum án uppsagnarfrests.